Fótbolti

Leik­maður Villa huggaði stuðnings­mann eftir að öryggis­vörður grætti hann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
diabby

Moussa Diaby, leikmaður Aston Villa, bjargaði deginum fyrir ungan stuðningsmann í gær.

Fyrir leik Villa og AZ Alkmaar í Sambandsdeild Evrópu hafði stuðningsmaðurinn ungi hafði lagt mikla vinnu í að útbúa borða þar sem hann óskaði eftir treyju Diabys.

Borðinn var hins vegar gerður upptækur vegna nýrra reglna í Hollandi sem banna stuðningsmönnum að vera með borða þar sem þeir biðja um treyjur leikmanna. Öryggisvörður tók borðann af stráknum, henti honum í ruslið og stuðningsmaðurinn ungi sat eftir með tárin í augunum.

Allt er þó gott sem endar vel því Diaby leitaði strákinn uppi eftir leikinn, faðmaði hann og gaf honum treyjuna sína. Stuðningsmaðurinn fékk því ósk sína uppfyllta á endanum.

Villa vann leikinn AFAS leikvanginum í Alkmaar með fjórum mörkum gegn einu. Diaby kom inn á sem varamaður þegar níu mínútur voru til leiksloka.

Diaby hefur leikið tólf leiki og skorað þrjú mörk síðan hann kom til Villa frá Bayer Leverkusen í sumar. Hann hefur spilað tíu leiki fyrir franska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×