Innlent

Stúdentar boða til blaða­manna­fundar: Skrá­setninga­gjald úr­skurðað ó­lög­mætt

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Stúdentaráð hefur boðað til blaðamannafundar á morgun klukkan 11:00 vegna málsins.
Stúdentaráð hefur boðað til blaðamannafundar á morgun klukkan 11:00 vegna málsins. Vísir/Vilhelm

Stúdenta­ráð Há­skóla Ís­lands hefur boðað til blaða­manna­fundar á morgun vegna úr­skurðar á­frýjunar­nefndar í kæru­málum há­skóla­nema sem hefur gert skólanum að endur­greiða nemanda skrá­setninga­gjald sem hann greiddi til skólans vegna skóla­ársins 2021 til 2022.

Mbl.is greinir frá því að nefndin hafi fellt úr gildi úr­skurð há­skóla­ráðs frá 3. nóvember 2022 um að hafna beiðni nemandans um endur­greiðslu gjaldsins. Nemandinn greiddi 75 þúsund krónur í skrá­setninga­gjald.

Hann óskaði eftir því í ágúst 2021 að há­skóla­ráð myndi skera úr um hvort skrá­setningar­gjaldið hafi verið rétt­mætt og hvort inn­heimta þess rúmaðist innan ramma laga nr. 85/2008 um opin­bera há­skóla. Hann gerði kröfu um endur­greiðslu þess „að því marki sem talið verður að gjaldið hafi verið ó­lög­mætt og standist ekki laga­á­skilnaðar­reglu um þjónustu­gjöld.“

Höfnuðu beiðni nemandans um endur­greiðslu tvisvar

Í októ­ber 2021 komst há­skóla­ráð að þeirri niður­stöðu að gjald­takan hafi verið lög­mæt. Þá kærði nemandinn niður­stöðuna til á­frýjunar­nefndar í kæru­málum há­skóla­nema sem felldi úr­skurðinn úr gildi. Há­skóla­ráð hafnaði hins vegar beiðni nemandans um endur­greiðslu að nýju og kærði nemandinn þá úr­skurð þess aftur til á­frýjunar­nefndarinnar.

Nemandinn bendir á að hver og einn nemandi greiði 75 þúsund króna skráningar­gjald til HÍ óháð því hvaða þjónustu nemandinn raun­veru­lega nýti sér af þeim kostnaðar­liðum sem að baki gjaldinu búa. Hann bendir á að grund­vallar­munur sé á sköttum og þjónustu­gjaldi. Þegar í­þyngjandi gjöld séu lögð á borgara skuli beita þrengjandi lög­skýringu um hvað falli undir þau gjöld.

Á­frýjunar­nefndin telur það ekki full­nægjandi af há­skólanum að byggja út­reikning skrá­setninga­gjaldsins á til­teknum hlut­föllum af raun­kostnaði nema ef fyrir liggi greining á því hverju þau hlut­föll byggi. HÍ svaraði nefndinni því að ekki sé haldið sér­stak­lega utan um kostnað nem­enda eða starfs­fólks í ein­stökum einingum.

Sé það ekki hægt þurfi að liggja fyrir traust á­ætlun og greining á því á hverju sú á­ætlun byggi. Telur á­frýjunar­nefndin að grund­völlur inn­heimtu skrá­setninga­gjaldsins sé því ekki full­nægjandi.

Krefjast þess að nemendur fái endurgreitt

Stúdentaráð Háskóla Íslands segist líta úrskurðinn alvarlegum augum. Ráðið segir að vanfjármögnun opinberra háskóla á Íslandi valda því að Háskóli Íslands hafi gripið til þess ráðs að seilast í vasa stúdenta til þess að halda sér á floti.

„Því krefjumst við þess að Háskóli Íslands endurgreiði hverjum þeim sem greitt hefur ólögmæt skrásetningargjöld við skólann, eins og honum ber skylda til. Boðað hefur verið til blaðamannafundar á morgun kl. 11:00 þar sem kjörnir fulltrúar stúdenta munu fjalla um málið.“

Fréttin hefur verið uppfærð með tilkynningu Stúdentaráðs Háskóla Íslands.  



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×