Fótbolti

Fagioli dæmdur í sjö mánaða bann fyrir brot á veðmálareglum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Nicolo Fagioli hefur verið dæmdur í sjö mánaða bann frá knattspyrnuiðkun.
Nicolo Fagioli hefur verið dæmdur í sjö mánaða bann frá knattspyrnuiðkun. Emilio Andreoli/Getty Images

Ítalska knattspyrnusambandði hefur dæmt Nicolo Fagioli í sjö mánaða bann frá knattspyrnuiðkun fyrir brot á veðmálareglum sambandsins.

Fagioli fékk alls tólf mánaða bann, þar af fimm mánaða skilorðsbundið bann, og þá þarf hann einnig að greiða sekt upp á 12.500 evrur sem samsvarar 1,8 milljón króna. Hann mun einnig þurfa að fara í meðferð við spilafíkn.

Ítalska knattspyrnusambandið, FIGC, segir að Fagioli hafi brotið reglur sambandsins með því að veðja á leiki á vegum þess. Þá hafi hann einnig brotið reglur með því að veðja á leiki á vegum evrópska knattspyrnusambandsins UEFA og alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA.

Talið er að Fagioli hafi notað hin ýmsu dulnefni á nokkrum ólöglegum veðmálasíðum.

Refsing þessa 22 ára gamla leikmanns kemur í kjölfar þess að fréttir bárust af því að Nicolo Zaniolo og Sandro Tonali, leikmenn Aston Villa og Newcastle, voru sendir heim af ítalska landsliðinu eftir að ítalska lögreglan hóf rannsókn á hendur þeim.

Alls gætu tugir leikmanna í ítölsku úrvalsdeildinni verið flæktir í nýjasta skandallinn er skekur deildina sökum gruns um að leikmenn hafi brotið veðmálareglur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×