Enski boltinn

Ratcliffe vill fá manninn sem fékk Salah og Van Dijk til Liverpool á Old Trafford

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Michael Edwards (lengst til hægri) starfaði við hlið Jürgens Klopp hjá Liverpool.
Michael Edwards (lengst til hægri) starfaði við hlið Jürgens Klopp hjá Liverpool. getty/John Powell

Ef Sir Jim Ratcliffe eignast hlut í Manchester United og fær að ráða fótboltamálum hjá félaginu ætlar hann að fá einn af arkitektunum að góðu gengi Liverpool undanfarin ár.

Talið er líklegt að Íslandsvinurinn Ratcliffe muni kaupa fjórðungshlut í United. Hann mun freista þess að stjórna því sem viðkemur fótboltanum hjá félaginu og samkvæmt enskum fjölmiðlum er hann búinn að finna mann til að hjálpa sér að koma United aftur á toppinn.

Sá heitir Michael Edwards og var áður yfirmaður knattspyrnumála hjá Liverpool. Hann sá meðal annars um leikmannakaup félagsins og er eignaður heiðurinn af því að hafa meðal annarra fengið Mohamed Salah og Virgil van Dijk á Anfield. Edwards yfirgaf Liverpool í maí á síðasta ári.

Ratcliffe vill fá Edwards til að sjá um leikmannakaup United og taka til í þeim málum hjá félaginu, enda ekki vanþörf á. Þrátt fyrir að hafa eytt svimandi háum upphæðum í leikmenn undanfarin ár hefur United ekki verið í baráttu um Englandsmeistaratitilinn síðan Sir Alex Ferguson hætti hjá félaginu fyrir áratug.

Ratcliffe hefur einnig augastað á Paul Mitchell sem starfaði áður við hlið Mauricios Pochettino hjá Southampton og Liverpool og vann hjá RB Leipzig áður en hann var ráðinn íþróttastjóri Monaco.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×