Íslenski boltinn

Nik tekur við Blikum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nik Chamberlain mun taka við liði Breiðabliks á næstu dögum.
Nik Chamberlain mun taka við liði Breiðabliks á næstu dögum. Vísir/Diego

Nik Chamberlain hefur látið af störfum sem þjálfari Þróttar í Bestu deild kvenna í knattspyrnu. Hann er í þann mund að taka við sem þjálfari kvennaliðs Breiðabliks.

Frá þessu greinir Kristján Kristjánsson, formaður Þróttar á stuðningsmannasíðu félagsins.

Þar segir:

„Ágætu Þróttarar. Í dag tilkynnti Nik Chamberlain, þjálfari mfl. kvenna að hann hyggðist láta af störfum hjá félaginu og taka við liði Breiðabliks. Nik hefur verið hjá okkur frá árinu 2016 en hefur nú afráðið að reyna fyrir sér í Kópavoginum.

Auðvitað hörmum við þessa niðurstöðu, stjórn gerði allt hvað hún gat til að telja Nik hughvarf en niðurstaðan er þessi og hún kom á óvart miðað við fyrri yfirlýsingar. Við þökkum auðvitað fyrir þessi ár, þann árangur sem náðst hefur og óskum Nik (hæfilegrar) velgengni á nýjum stað.

Um leið er rétt að hvetja Þróttara til að standa þétt að baki liðinu okkar í Bestu deildinni, við höfum háleit markmið og leggjum þau ekki á hilluna þó nýr þjálfari taki við stjórninni.“

Breiðablik endaði í 2. sæti Bestu deildar kvenna í sumar með 43 stig á meðan Þróttur Reykjavík endaði í 3. sæti með 38 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×