Fótbolti

Karólína Lea skoraði og lagði upp í öruggum sigri

Smári Jökull Jónsson skrifar
Karólína Lea hefur verið frábær með Leverkusen á tímabilinu.
Karólína Lea hefur verið frábær með Leverkusen á tímabilinu. Twitter@@femmesfootnews

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir lét til sín taka í liði Leverkusen í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Sara Björk Gunnarsdóttir kom af bekknum hjá Juventus sem vann stórsigur á Ítalíu.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er á láni hjá Leverkusen frá Bayern Munchen en hún fékk fá tækifæri hjá þýska stórliðinu á síðustu leiktíð.

Hún var í byrjunarliði Leverkusen gegn sterku liði Freiburg sem meðal annars náði jafntefli gegn Bayern Munchen í fyrstu umferðinni.

Leverkusen vann hins vegar nokkuð þægilegan sigur í dag. Liðið var 2-0 yfir í hálfleik eftir mörk frá Nikola Karczewska á 32. mínútu og annað frá Kristin Kogel í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Karólína Lea átti stoðsendinguna í fyrra markinu og náði sér þar að auki í gult spjald skömmu síðar.

Í síðari hálfleik bætti Leverkusen við þriðja markinu á 60. mínútu og þar var Karólína Lea sjálf að verki. Þetta er þriðja deildarmark Karólínu Leu á leiktíðinni og hún hefur nú skorað í þremur leikjum í röð í úrvalsdeildinni.

Karólína Lea var tekin af velli á 72. mínútu en leiknum lauk með 3-0 sigri Leverkusen.

Á Ítalíu vann Juventus öruggan 4-0 sigur á Sassuolo á heimavelli sínum í Tórínó. Sara Björk Gunnarsdóttir kom inn af bekknum á 77. mínútu en Juventus er með fullt hús stiga í deildinni eftir fjórar umferðir og jafnt meisturum Roma á toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×