Innlent

Þing­flokkurinn fagni af­sögn eigin formanns sem hans besta verki

Magnús Jochum Pálsson og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru sammála um að ríkisstjórnin sýndi veikleika sína með ráðherraskiptum. Halda ætti stjórninni sofandi áfram í öndunarvél og hún minnti á dauðadæmdan fótboltaþjálfara.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru sammála um að ríkisstjórnin sýndi veikleika sína með ráðherraskiptum. Halda ætti stjórninni sofandi áfram í öndunarvél og hún minnti á dauðadæmdan fótboltaþjálfara. Stöð 2

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins skiptust á ráðuneytum í dag. Þingmenn stjórnarandstöðunnar segja stjórninni haldið í öndunarvél og að hún minni á dauðadæmdan þjálfara sem fær stuðningsyfirlýsingu frá félagi sínu. Ólafur Harðarson telur að Bjarni sé nú búinn að koma böndum á villiketti flokksins.

Bjarni Benediktsson kynnti nýjan fjármálaráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, á blaðamannafundi í morgun. 

Sjálfur sagðist Bjarni hafa hugsað vel um sína stöðu innan ríkisstjórnarinnar en ákveðið að taka við utanríkisráðuneytinu. Það kæmi ekki annað til greina en að formaður Sjálfstæðisflokksins fylgdi ríkisstjórnarsamstarfinu áfram eftir.

Aðspurður hvort hann axlaði ábyrgð með því að fara úr einu ráðuneyti í annað sagðist hann fyrst og fremst vilja skapa frið í fjármálaráðuneytinu. Þá gaf hann lítið fyrir niðurstöðu könnunar Maskínu þar sem sjötíu prósent þátttakenda töldu ekki rétt að hann tæki við öðru ráðherraembætti.

„Ég sæki mitt umboð til flokksmanna Sjálfstæðisflokksins og við erum stjórnmálaafl sem stendur saman og ég finn fyrir miklum stuðningi frá mínum flokksmönnum sem er það sem fyrst og fremst skiptir mig máli,“ sagði Bjarni í dag.

Ekkert nýtt að ríkisstjórnin standi tæpt

Fréttastofa ræddi við þingmenn stjórnarandstöðunnar, Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, þingmann Viðreisnar og Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þingmann Miðflokksins, um ráðherraskiptin. Báðum fannst þeim útspil ríkisstjórnarinnar til merkis um veikleika hennar.

Þorbjörg Sigríður sagði blaðamannafund ríkisstjórnarinnar sýna hvað ríkisstjórnin stæði veikt.Stöð 2

„Þetta var kannski dagur um ekki neitt en tíðindin kannski, að ríkisstjórn sem þarf á miðju kjörtímabili að halda blaðamannafund um það að hún ætli að halda störfum sínum áfram stendur auðvitað sjúklega tæpt. En það er ekkert nýtt í því heldur,“ sagði Þorbjörg Sigríður aðspurð hvernig ráðherraskiptin blöstu við henni.

„Og að ríkisstjórn sem er búin að starfa saman í sex ár þurfi að halda vinnufundi til þess að gera dauðaleit að erindi sínu stendur líka tæpt,“ bætti hún við.

„Mér sýnist að niðurstaðan þarna hafi einfaldlega verið: Formennirnir þrír ætla að halda ríkisstjórninni sofandi í öndunarvél í tvö ár í viðbót.“

Fagna afsögn eigin formanns sem því besta sem hann hefur gert

Sigmundur Davíð, þú hefur ekki látið þitt eftir liggja í að gagnrýna ríkisstjórnina eða leiðbeina henni. Er einhverra leiðbeininga þörf þarna?

„Þetta er nokkur veginn eins og Þorbjörg lýsti. Þrátt fyrir að við höfum séð þingflokk Sjálfstæðismanna fagna afsögn eigin formanns sem einhverju því besta sem hann hefði nokkurn tímann gert þá kom mér samt á óvart að þeir skyldu ekki nýta stöðuna til að treysta sessinn í ríkisstjórn,“ sagði Sigmundur.

„Í staðinn tjóðruðu þeir sig við mastrið á sökkvandi skipi og leita kannski núna í smiðju Framsóknarflokksins með nýtt slagorð. Eins og frægt var þá sagði Framsókn fyrir síðustu kosningar Er ekki bara best að kjósa Framsókn? og nú segir Sjálfstæðisflokkurinn Þarf þetta ekki bara að vera svona?

Sigmundur Davíð furðaði sig á því hvað Sjálfstæðismenn fögnuðu afsögn formannsins sem hans besta verki.Stöð 2

Ríkisstjórnin minni á dauðadæmdan þjálfara

Formenn flokkanna hafa talað um að ríkisstjórnin standi mjög traustum fótum. Finnst þér þetta vera merki um það?

„Nei, auðvitað er það bara eitthvað spaug. Alltaf kemur aftur og aftur í hugann myndin af Comical Ali [Muhammad Saeed al-Sahhaf] þegar hann var að lýsa stórkostlegum sigrum Írakshers í fyrra Íraksstríðinu. Svo gera menn líka samlíkingar við íþróttafélög þar sem er lýst yfir eindregnum stuðningi við þjálfarann akkúrat daginn áður en hann er rekinn.

„Þetta er búið að vera oflof, finnst mér, hjá stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar, bæði í dag og í gær,“ sagði Sigmundur að lokum.

Bjarni njóti trausts samstarfsflokkanna og þingflokksins

Ólafur Þ. Harðarson, stjórnmálaprófessor, greindi stöðuna í beinni útsendingu kvöldfrétta Stöðvar 2 með Sindra Sindrasyni, fréttaþuli.

„Fólki greinir á hvort Bjarni sé að axla ábyrgð. Hvað segir þú?“ spurði Sindri Ólaf.

„Þetta er álitamál. Við höfum kannanir sem sýna að sjötíu prósent þjóðarinnar vilja að hann segi af sér, það er að segja hætti í ríkisstjórninni. Það sem kom mér meira á óvart var að fjórðungur kjósenda Sjálfstæðisflokksins er sama sinnis. Þannig að verulegur hluti þjóðarinnar telur hann að minnsta kosti ekki axla nægilega ábyrgð,“ sagði Ólafur.

„Hins vegar nýtur hann trausts samstarfsflokkanna og hann virðist njóta mikils trausts í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Í þessu sambandi er það sem skiptir máli en ekki einhverjar mælingar í könnunum,“ sagði Ólafur.

Sindri Sindrason og Ólafur Þ. Harðarson ræddu um ákvörðun Bjarna að færa sig úr fjármálaráðuneytinu í utanríkisráðuneytið.Stöð 2

Framtíð stjórnarinnar hefði verið í meiri hættu án Bjarna

„Svo eru það þeir sem segja: Það gengur ekki að formaður stjórnmálaflokks sem er í ríkisstjórn sé ekki með ráðherrastól og komist ekki á ríkisstjórnarfundi,“ sagði Sindri þá.

„Það hefur að vísu gert áður. Til dæmis var Þorsteinn Pálsson, eftir að hann tók við formennsku, þá var hann ekki strax í ríkisstjórninni. En það olli alls konar vandræðum,“ sagði Ólafur og bætti við „Og ég held að það sé alveg rétt að það er mjög ankannalegt að formaður eins stjórnarflokksins eigi ekki sæti í ríkisstjórninni.“

„Ég held reyndar að ef Bjarni hefði kosið að hætta í ríkisstjórninni þá hefði framtíð þessa stjórnarsamstarfs verið í umtalsverðri hættu, mun meiri hættu heldur en núna eftir þessa leiki í þessari stöðu,“ sagði Ólafur.

Bjarni búinn að koma böndum á villikettina

„Þetta er ekkert einsdæmi. Þetta hefur verið að gerast í löndunum í kringum okkur,“ sagði Sindri.

„Þegar svona kemur upp á þá er algengast á Norðurlöndunum að viðkomandi ráðherra segi bara af sér og komi svo aftur eftir ekkert mjög langan tíma.

„Hins vegar sá ég að það er mjög nýlegt dæmi, frá þessu ári, í Danmörku sem er mjög forvitnilegt vegna þess að það er í rauninni mjög svipað og það sem er að gerast hér. Varnarmálaráðherrann, Jakob Ellemann-Jensen, formaður Venstre, eins af þremur stjórnarflokkum. Hann lenti í því í byrjun árs að segja þinginu ósátt varðandi vopnasölu, þeir voru að kaupa vopn af Ísraelsmönnum.

Jakob Ellemann-Jensen, formaður Venstre, var varnarmálaráðherra Danmerkur en skipti yfir í efnahagsráðuneytið.EPA

„Þegar að þetta kemst upp þá segir hann Embættismenn mínir gáfu mér rangar upplýsinga, ég var í góðri trú þegar ég sagði þinginu ósatt og ég bið þingið afsökunar. Hann lét ráðuneytisstjórann síðan hætta, sagði af sér sem varnarmálaráðherra, hélt áfram sem varaforsætisráðherra eins og hann var áður og tók við nýju ráðuneyti, efnahagsráðuneytinu,“ sagði Ólafur.

„Þannig þessi kaup gerist víðar á eyrinni heldur en hér,“ sagði Ólafur.

Aðspurður hvort ríkisstjórnin væri sterkari eða veikari eftir daginn í dag sagði Ólafur að hún væri hvorugt. Hins vegar væri búið að eyða þeim vafa um að ríkisstjórninni héldi út kjörtímabilið.

„Og mér sýnist að sérstaklega Bjarna hafi tekist að koma nokkrum böndum á órólegu deildina, eða villikettina eins og var nú sagt einu sinni, í Sjálfstæðisflokknum,“ sagði hann að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×