„Þetta var auðvitað gríðarlega erfitt enda fékk ég mikla hjálp frá konunni minni og að vera í kringum dóttur mína. Ég fékk líka hjálp frá sálfræðingum og geðlæknum. Ég var með gott fólk í kringum mig," segir Gylfi Þór í samtali við Guðmund Benediktsson í dag. „Svo skipti hreyfing miklu máli líka og að hafa eitthvað fyrir stafni á hverjum degi.“
Gengur enn til sálfræðings
Gylfi segist enn leita sér aðstoðar með andlegu hliðina hjá sérfræðingum í dag.
„Ég mun halda því áfram í einhvern tíma en eitthvað minna en áður. Það hefur minnkað frá því ég byrjaði fyrst sem er eðlilegt. Mér mun finnast það gott að hafa svona hjálp.“
Skyndiákvörðun að fara á EM kvenna
Gylfi var handtekinn sumarið 2021 og spilaði ekki fótbolta í tvö ár. Fréttastofu var ekki leyfilegt að spyrja út í málið sem var vísað frá í apríl. Gylfi hafði ekki sést opinberlega í heilt ár er hann dúkkaði óvænt upp á EM kvenna sumarið 2022.
„Ég ætlaði ekkert að koma á leikinn. Ég var í spænskutíma heima og það var skyndiakvörðun að keyra upp eftir í fjóra tíma á leikinn. Það var kannski betra að það væri skyndiákvörðun heldur en að ég hefði planað það. Þá hefði kannski verið meiri kvíði og meira stress. En þetta var gott eftir á.“