Innlent

„Ekki til fyrir­myndar og svona gerir maður ekki“

Atli Ísleifsson og Helena Rós Sturludóttir skrifa
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir Áslaugu Örnu hafa rætt við sig að loknum ríkisstjórnarfundi.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir Áslaugu Örnu hafa rætt við sig að loknum ríkisstjórnarfundi. Vísir/Ívar Fannar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að forystufólk í stjórnmálum og þeir sem vilji láta taka sig alvarlega sem stjórnmálamenn, eigi að vanda sig í því að tala um sitt samstarfsfólk bæði af virðingu og ábyrgð.

Þetta sagði Katrín að loknum ríkisstjórnarfundi skömmu fyrir hádegi þegar hún var spurð um ræðu Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og vísindaráðherra, á Sjávarútvegsdeginum fyrr í vikunni þar sem hún skaut á Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra. 

Katrín segist vera á því að ummæli Áslaugar Örnu hafi ekki verið til fyrirmyndar og „svona gerir maður ekki.“

Eins og Vísir greindi frá í gær á­­varpaði Ás­laug Arna stjórn­endur í sjávar­­út­vegi í fyrra­­dag í Hörpu. Þar hélt ráðherrann ræðu um ný­­sköpun en sagði fyrst að það væri freistandi að ræða mál­efni líðandi stundar og sagði Svan­­dísi Svavars­dóttur vera sam­­nefnara reglu­­verka og eftir­­lits á meðan mynd af henni var varpað upp á vegg.

Forystufólk vandi sig

Forsætisráðherra bendir á að hún hafi ekki verið á staðnum en hafi að sjálfsögðu lesið fréttir af atvikinu. 

„Ég vil bara segja það mjög einfaldlega: Fólk sem vill vera forystufólk í stjórnmálum, vill láta taka sig alvarlega sem stjórnmálamenn, það á að vanda sig í því að tala um sitt samstarfsfólk bæði af virðingu og ábyrgð,“ segir Katrín.

Ummælin hafa verið harðlega gagnrýnd. Finnst þér eins og þetta skapi sundrungu í ríkisstjórninni?

„Ég held að það sé best að Áslaug svari fyrir sín ummæli sjálf. Ég ítreka bara það sem ég segi: Stjórnmálafólk sem vill láta taka sig alvarlega það vandar sig í því hvernig það ræðir um samstarfsfólk sitt,“ segir Katrín.

Stendur þú með Svandísi í þessu máli?

„Að sjálfsögðu stend ég með Svandísi. Stóra málið í þessu er, eins og ég hef þegar sagt, að fólk þarf að vanda sig í því sem það setur fram. Það snýst ekki um það að fólk fari í málefnalegan ágreining, því að það er eðlilegt að fólk ræði þau mál. Það er eðlilegt að við gerum þá kröfu til fólk sem vill telja sig vera forystufólk í íslenskum stjórnmálum, að það vandi sig í sínum málflutningi.“

Var þetta rætt á ríkisstjórnarfundi í dag?

„Áslaug Arna ræddi við mig eftir fundinn,“ segir Katrín.

Fyrir fund sagði hún að hún sæi ekki eftir neinu. Finnst þér ummæli eins og þessi vera viðeigandi fyrir ráðherra í ríkisstjórn?

„Nú var ég ekki á staðnum þegar þessi ræða var flutt, en út frá fréttaflutningi þá held ég að það hafi komið algerlega skýrt fram að mér finnst þetta ekki til fyrirmyndar og svona gerir maður ekki.,“ segir Katrín.


Tengdar fréttir

Svan­dís ó­sátt en Ás­laug sér ekki eftir neinu

Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir há­­skóla-, iðnaðar- og ný­­sköpunar­ráð­herra sér ekki eftir ræðu sinni á Degi Sjávar­­út­vegsins þar sem hún skaut á sam­ráð­herra sinn Svan­­dísi Svavars­dóttur. Hún segist búin að ræða við sam­ráð­herra sinn sem hafi ekki verið sátt. Ræðan hafi fjallað um nýsköpun.

Varpaði mynd af Svan­­dísi á skjá og skaut föstum skotum

Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir, há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra, á­varpaði stjórn­endur í sjávar­út­vegi í gær í Hörpu á Sjávar­út­vegs­daginn. Hún sagði freistandi að ræða mál­efni líðandi stundar og nefndi sér­stak­lega Svan­dísi Svavars­dóttur, mat­væla­ráð­herra, en sagðist þess í stað ætla að ræða ný­sköpun í sjávar­út­vegi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×