Erlent

Ís­­lendingur lýsir á­standinu í New York sem súrrealísku

Kristín Ólafsdóttir og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Neyðarástandi hefur einnig verið lýst yfir á Long Island eyjunni og Husdon Valley svæðinu.
Neyðarástandi hefur einnig verið lýst yfir á Long Island eyjunni og Husdon Valley svæðinu. AP

Neyðarástandi var lýst yfir í New York-borg og víðar í gær vegna mestu rigninga á svæðinu í sjötíu ár. Íslendingur sem búsettur hefur verið í borginni í áratug segir ástandið súrrealískt. Götur breyttust í straumþungar ár og samgöngur lömuðust.

Ríkisstjóri New York lýsti ástandinu sem skapaðist í borginni í gær sem lífshættulegu. Rigningarveðrið var enda með ólíkindum . Hálfgerðar ár mynduðust á götum og samgöngur voru í algjörum lamasessi. Eins og Íslendingur sem búið hefur í borginni um langt skeið reyndi á eigin skinni í gær. 

„Ég fór í klippingu í miðri borg, ég bý í Brooklyn. Það var næstum því þriggja tíma ferðalag. Eitthvað sem hefði átt að vera fjörutíu mínútur. Það var bara rosalegt flóð alls staðar,“ segir Stefán Jóhann Sigurðsson, íbúi í New York-borg. 

„Við þurfum að þræða götur sem þú venjulega ferð ekki, bara til þessað komast yfir í borgina. Og það var fullt af svæðum sem var lokað og náttúrlega umferðin hræðileg eftir því,“ bætir hann við. „Og maður hefur bara séð myndir og vídeó frá vinum og kunningjum þar sem heimili hafa flætt, húsnæði ónýtt, bílar sem fljóta bara í ám sem voru áður götur, sem er svolítið súrrealískt að sjá.“ 

Úrkoma í New York mældist sums staðar upp undir tuttugu sentímetra í gær og loka þurfti flugstöð á La Guardia flugvellinum um tíma eftir að flæddi inn í hana. Stefán segir New York búa uggandi og fólkið sé sannarlega tíðrætt um loftslagsbreytingar þessa dagana.

„Ég held að fólk, vonandi, átti sig betur og betur á því að svona veðurofsi getur hitt fólk hvar sem er og hvenær sem er og það sést að við erum ekkert endilega sérstaklega vel undirbúin undanfarinn áratug. Það hefur ekkert hitt okkur eins harkalega og þessi rigning í gær,“ segir Stefán að lokum. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×