Innlent

Mátti ekki fletta sjúkra­­skrá kollega síns eftir vinnu­­slys

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Læknirinn bar fyrir sig að vinnustaður sinn hefði farið fram á að hann gæfi sitt mat á samstarfsmanni sínum.
Læknirinn bar fyrir sig að vinnustaður sinn hefði farið fram á að hann gæfi sitt mat á samstarfsmanni sínum. Vísir/Vilhelm

Per­sónu­vernd hefur úr­skurðað lækni sem fletti fjórum sinnum upp í sjúkra­skrá sam­starfs­manns síns eftir að hann lenti í vinnu­slysi brot­legan við per­sónu­verndar­lög.

Læknirinn gegndi störfum trúnaðar­læknis á vinnu­stað kvartanda og höfðu upp­flettingarnar farið fram í tengslum við störf hans sem trúnaðar­læknir. Áður hafði Embætti landlæknis komist að þeirri niðurstöðu að læknirinn hefði verið brotlegur við lög um sjúkraskrár.

Í úr­skurði Per­sónu­verndar kemur fram að sam­starfs­maður læknisins hafi lent í vinnu­slysi og hafi verið ó­vinnu­fær á tíma­bili. Hann hafi hætt störfum hjá við­komandi heil­brigðis­stofnun og síðar komist að því að læknirinn hafi flett upp í sjúkra­skrá sinni.

Starfs­maðurinn vísaði til þess að trúnaðar­læknirinn hefði ekki komið að læknis­með­ferð sinni og að hann hafi ekki verið að leita sér læknis­að­stoðar á þeim tíma sem upp­flettingarnar fóru fram. Hann hafi lent í vinnu­slysi og hætt störfum. Eftir það hafi læknirinn skoðað sjúkra­skrá hans fjórum sinnum án sam­skipta við sig.

Læknirinn segir vinnu­veitanda hafa leitað til sín

Í svar­bréfi trúnaðar­læknisins kemur fram að hann hafi um nokkurra ára skeið starfað sem læknir á við­komandi heil­brigðis­stofnun þar sem starfs­maðurinn hafi verið bú­settur. Hann segir starfs­manninn hafa lent í vinnu­slysi og verið ó­vinnu­færan.

Reynt hafi verið að koma til móts við hann svo hann gæti mætt til vinnu, sem hann hafi sam­þykkt. Læknirinn segir að starfs­manninum hafi hins vegar síðar verið sagt upp störfum sökum heilsu­brests. Starfs­maðurinn hafi í fram­haldinu leitað réttar síns varðandi ó­lög­mæta upp­sögn á grund­velli lengds veikinda­réttar og segir læknirinn hann hafa vísað til þess að hann hafi lent í öðru vinnu­slysi.

Trúnaðar­læknirinn segir að vinnu­veitandinn hafi í kjöl­farið leitað til hans, í því skyni að meta af­leiðingar hins meinta vinnu­slyss. Síðar hafi vinnu­veitandi svo að nýju óskað eftir sér­stöku mati frá honum sem trúnaðar­lækni fyrir­tækisins.

Segir læknirinn að matið hafi farið fram í formi við­tals á starfs­stöð hans. Segir hann að í um­ræddu við­tali hafi hann fengið munn­legt sam­þykki frá sam­starfs­manni sínum fyrir því að fletta upp í sjúkra­skrá hans.

Starfs­maðurinn vísaði hins vegar til þess að stað­setning við­talsins hefði verið valin að frum­kvæði trúnaðar­læknisins. Hann hefði rætt við sig sem trúnaðar­lækni og ef þörf hefði verið á frekari heilsu­fars­upp­lýsingum hefði að hans mati verið við­eig­andi að óska eftir læknis­vott­orði. Hefði hann ekki verið bú­settur í við­komandi sveitar­fé­lagi hefði læknirinn ekki haft að­gang að þessum gögnum og því var það mat starfs­mannsins að læknirinn hefði mis­notað sér að­stöðu sína.

Trúnaðar­læknir geti aldrei verið heimilis­læknir

Per­sónu­vernd segir í úr­skurði sínum að engar lög­festar reglur séu um trúnaðar­lækningar. Árið 2009 hafi Sið­fræði­ráð Lækna­fé­lag Ís­lands hins vegar tekið saman við­miðunar­reglur um slíkar lækningar.

Sam­kvæmt við­miðunar­reglunum er litið svo á trúnaðar­læknir geti aldrei verið heimilis­læknir starfs­fólks. Mikil­vægt sé að trúnaðar­læknir gæti þess að starfs­maður geri sér grein fyrir að sem trúnaðar­læknir hafi hann skyldum að gegna gagn­vart fyrir­tæki eða stofnun sem hefur ráðið hann til starfa og skiptir miklu að starfs­menn geri sér grein fyrir stöðu trúnaðar­lækna.

Að mati Per­sónu­verndar er því ekki talið að starfs­maðurinn hafi í um­rætt sinn verið fylli­lega upp­lýstur um til­gang fyrir vinnslu per­sónu­upp­lýsinga sinna og hvaða af­leiðingar með­ferð þeirra gæti haft fyrir hann. Þá telur Per­sónu­vernd nokkurs að­stöðu­munar hafa gætt á milli starfs­mannsins og trúnaðar­læknisins þar sem hann hafi verið að vinna að mati á afleiðingum vinnu­slyss að beiðni vinnu­veitanda starfs­mannsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×