Innlent

Sænskir arkitektar unnu baráttuna um Keldnalandið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Teikning sem sýnir vinningstillögu FOJAB arkitekta í alþjóðlegri samkeppni um þróun Keldnalands.
Teikning sem sýnir vinningstillögu FOJAB arkitekta í alþjóðlegri samkeppni um þróun Keldnalands. FOJAB

Sænska arkitektastofan FOJAB bar sigur úr býtum í alþjóðlegri samkeppni Reykjavíkurborgar og Betri samgangna um nýtt sjálfbært borgarhverfi að Keldum. Greint var frá úrslitunum í Ráðhúsinu nú síðdegis. Danska verkfræðistofan Ramboll var í ráðgjafahlutverki í vinningstillögunni. 

Þrjátíu og sex tillögur bárust í fyrri áfangann í apríl og lagðist dómnefnd yfir leggjast tillögurnar og valdi fimm sem voru þróaðar áfram. Þeir fimm fengu frest til 18. ágúst til að skila inn fullunnum tillögum. Nú liggur endanleg niðurstaða fyrir. 

Fram kemur á vef Reykjavíkurborgar í dag að í verðlaunatillögunni sé lögð áhersla á að einfalt sé fyrir íbúa að lifa sjálfbæru og heilbrigðu hversdagslífi vegna nálægðar við náttúruna, með grænum svæðum, hverfisgörðum og torgum.

„Skipulag nýs hverfi að Keldum markar ný og spennandi tímamót í þróun borgarinnar,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og formaður dómnefndar um þróun Keldnalands.

Keldur verði tímamótahverfi þar sem það gangi út frá tilkomu Borgarlínu og öflugum virkum ferðamátum frá fyrsta degi. Hverfið verði lifandi, spennandi og hlýlegt allt í senn.

„Keldur verða þétt, fjölbreytt og grænt borgarhverfi, sem nýtur góðs af nálægð við náttúruna og hágæða almenningssamgöngum, Borgarlínu. Keldur verða meðal annars tímamótahverfi þar sem það gengur út frá tilkomu Borgarlínu og öflugum virkum ferðamátum frá fyrsta degi. Hverfið verður lifandi, spennandi og hlýlegt allt í senn,“ segir hann.

Góður leiðarvísir fyrir þróunarvinnuna fram undan

Tvær tillögur til viðbótar hlutu viðurkenningu. Verðlaunatillagan, auk þeirra tveggja sem hlutu viðurkenningu, móta grunn að góðri forsögn fyrir áframhaldandi vinnu við hönnun og þróun. Gert er ráð fyr­ir að lág­marki tíu þúsund manna byggð á svæðinu og að fimm þúsund manns starfi þar.

Mynd úr vinningstillögu FOJAB.

Til viðbótar við það markmið að á Keldnalandi rísi spennandi nútímahverfi er sá grunnur að það byggi á vistvænum samgöngum og stuðli að kolefnishlutlausu borgarsamfélagi. Það markmið helst í hendur við að Borgarlínan mun liggja í gegnum hverfið og verður áhersla á þjónustu og atvinnustarfsemi í kringum stöðvar hennar. Stefnt er að því að þjónusta Borgarlínunnar hefjist samhliða afhendingu á fyrstu 100 íbúðunum. Áætlaður ferðatími með Borgarlínunni að Lækjartorgi er í kringum 20 mínútur.

Metnaðarfull markmið í borgarþróun

Í dómnefndaráliti segir að viðfangsefni samkeppninnar, eins og þau komu fram í keppnislýsingu, endurspegli metnaðarfull markmið í borgarþróun, sem ekki eigi sér fordæmi á Íslandi. 

Myndir úr vinningstillögu FOJAB.

„Hugsanlega verður litið á einhver þeirra með tortryggni, til dæmis þau sem snúa að kolefnishlutleysi og raunverulegri fjölbreytni í ferðamátum, í borg þar sem íbúar eru háðir einkabílnum og byggðin er fremur dreifð miðað við íbúafjölda. Eftir skoðun á tillögunum telur dómnefndin þó enn raunhæfara en áður að markmiðin náist og Keldnaland verði mikilvægt fordæmi við mótun annarra nýrra hverfa,“ segir í álitinu.

Markmiðið er lifandi borgarumhverfi

„Tillagan er byggð á reglubundinni notkun byggðarreita meðfram sannfærandi og raunhæfri leið fyrir Borgarlínu, með vel staðsettum stöðvum og hverfiskjörnum. Með þessu nýtist landið vel og dreifing þéttleikans er sveigjanleg en leiðir eru jafnframt greiðar gegnum byggðina,“ segir í dómnefndaráliti um vinningstillöguna. 

Þar er einnig minnst á að í tillögunni sé sett fram ítarlegt og ígrundað net leiða fyrir alla ferðamáta, sem rími vel við blöndun byggðar og staðsetningu þjónustu.

Mynd úr vinningstillögu FOJAB.

Magdalena Hedman, arkitekt og verkefnisstjóri tillögunnar hjá FOJAB, segir að áhersla á kolefnishlutleysi setji mark sitt á skipulagsvinnuna og sömuleiðis að borgarhverfi sem þetta sé frekar óalgengt á Íslandi.

„Arkitektúrinn í tillögu okkar miðast við mannlegan skala – þrjár til fimm hæðir – en er á sama tíma nógu þéttur og vel tengdur til að skapa lifandi borgarumhverfi,“ segir hún.

Heildarstigafjöldi réð úrslitum

Samkeppnin, sem fór af stað í janúar á þessu ári, fór fram í tveimur þrepum. Alls bárust 36 tillögur og voru fimm valdar til frekari vinnslu. Samkeppnin var nafnlaus á báðum þrepum og var dómnefnd ókunnugt um hvaða teymi stóðu að hverri tillögu við mat og stigagjöf tillagnanna. Heildarstigafjöldi, sem byggði á mati á 14 viðfangsefnum, réði úrslitum. Greidd var 50.000 evru þóknun fyrir vinnu hvers teymis á öðru þrepi og til viðbótar fær verðlaunatillagan aðrar 50.000 evrur.

Tillögurnar fimm eru verðlaunatillagan Crafting Keldur, sem hlaut 536 stig, Connect Fast + Live Slow (420 stig – viðurkenning), Urban Life Meets Keldur Park (396 stig– viðurkenning), The Green River (314 stig) og Keldur - weaving natural and urban fabrics (311 stig).

Framundan er hönnunar- og skipulagsvinna

Mikilvægt er að hafa í huga að þróunarvinna og skipulagsgerð er á frumstigi þó samkeppni sé lokið og að nú liggi fyrir góð forsögn fyrir áframhaldandi vinnu. Nálgunin í tillögunum og myndefni í þeim þarfnast töluverðrar úrvinnslu og mun breytast í áframhaldandi skipulagningu og hönnun, áður en skipulagsáætlanir verða staðfestar og framkvæmdir geta hafist. Skipulagningu og uppbyggingu verður skipt í minni áfanga og ljóst að svo stór og fjölmenn byggð rísi ekki á skömmum tíma.

Reykjavíkurborg og Betri samgöngur eru að hefja næsta áfanga við þróun svæðisins. Nú hefst formleg tillögugerð í samráði við hagsmunaaðila, íbúa og ráðgjafa við frekari þróun fyrirliggjandi hugmynda, vinnslu rammahluta aðalskipulags Reykjavíkur fyrir svæðið og mótun deiliskipulags fyrir fyrstu hluta uppbyggingarinnar.

Sýning á tillögunum fimm stendur yfir í Tjarnarsal Ráðhússins en henni lýkur 2. október. Öll velkomin.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

36 til­lögur bárust í sam­keppni um þróun Keldna­lands

Þrjátíu og sex tillögur bárust um nýtt sjálfbært borgarhverfi að Keldum í fyrri áfanga alþjóðlegrar samkeppni um þróun Keldnalands. Dómnefnd mun nú leggjast yfir tillögurnar og velja fimm sem verða þróaðar áfram.

Samgöngusáttmáli í fullu gildi og stórframkvæmdir í undirbúningi

Innviðaráðherra segir mörg stór verkefni framundan samkvæmt samgöngusáttmála við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Kostnaður við mörg þeirra aukist eðlilega með verðlagi og þróun verkefnanna. Samanlagt fylgi við stjórnarflokkanna hefur ekki mælst minna frá kosningunum 2021.

Nýtt hverfi í Reykjavík rís á Keldnalandinu

Á næstu árum mun rísa nýtt hverfi á Keldum og Keldnaholti en ríkið afsalaði sér landinu með formlegum hætti til Betri samgangna ohf. í gær. Skipulagsvinna hefst strax á næsta ári en svæðið er sagt vera álíka stórt og miðborg Reykjavíkur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.