Innlent

Kristinn tekur við sem sviðs­stjóri kennslu­sviðs HÍ

Atli Ísleifsson skrifar
Kristinn Andersen.
Kristinn Andersen.

Kristinn Andersen, prófessor við rafmagns- og tölvuverkfræðideild, hefur verið ráðinn sviðsstjóri kennslusviðs Háskóla Íslands

Kristinn tekur við stöðunni af Róbert Haraldssyni sem hverfur nú til fyrri starfa sinna innan HÍ sem prófessor í heimspeki.

Í tilkynningu frá Háskóla Íslands segir að Kristinn hafi lokið CS-gráðu í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1982, MS-prófi í sömu grein frá Vanderbilt-háskóla í Bandaríkjunum árið 1992 og doktorsprófi frá sama skóla ári síðar. Þá hafi hann einnig lokið viðbótardiplóma í kennslufræði fyrir háskóla.

„Kristinn starfaði sem yfirverkfræðingur hjá Mid-South Engineering í Nashville í Bandaríkjunum á árunum 1985-1990 og að loknu doktorsnámi hélt hann heim til Íslands þar sem hann starfaði hjá Marel í yfir tvo áratugi, lengst af sem rannsóknastjóri. Jafnhliða störfum hjá Marel var hann aðjunkt og sinnti stundakennslu í rafmagns- og tölvuverkfræði við HÍ um árabil. Hann kom til starfa við Háskóla Íslands árið 2014 og hefur gegnt stöðu prófessors í rafmagns- og tölvuverkfræði frá þeim tíma.

Kristinn hefur auk þess gegnt ýmsum trúnaðar- og stjórnunarstörfum innan Háskóla Íslands. Hann hefur m.a. verið forseti Rafmagns- og tölvuverkfræðideildar, formaður hugverkanefndar Háskóla Íslands og Landspítala, formaður dómnefndar í Vísinda- og nýsköpunarverðlaunum Háskóla Íslands og í dómnefnd vegna framgangs starfsfólks á Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Utan Háskólans hefur hann m.a. verið formaður Verkfræðingafélags Íslands,“ segir í tilkynningunni. 

Kennslusvið er eitt af átta stoðsviðum Háskóla Íslands og fer með sameiginleg málefni sem varða kennslu og nám, svo sem inntöku og skráningu stúdenta, mat á námi, nemendaráðgjöf, kennslumál, kennsluþróun og próf. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×