Fótbolti

Fyrsta tapið hjá Juventus en Milan vann

Smári Jökull Jónsson skrifar
Armand Lauriente skýtur hér yfir mark Juventus í leiknum í dag.
Armand Lauriente skýtur hér yfir mark Juventus í leiknum í dag. Vísir/Getty

Juventus tapaði í dag sínum fyrsta leik í ítölsku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. Milan vann hins vegar nauman heimasigur.

Juventus hefur farið vel af stað í ítölsku deildinni til þessa og mætti í dag Sassuolo á útivelli. Armand Lauriente kom heimaliðinu yfir á 12. mínútu en Juventus jafnaði með sjálfsmarki Matias Vina.

Dominico Berardi kom Sassuolo hins vegar í forystu á ný skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks og staðan 2-1 að honum loknum. Þegar rúmar tíu mínútur voru eftir jafnaði Federico Chiesa metin fyrir gestina og bjuggust flestir við því að Juventus myndi sækja stíft til að ná stigunum þremur.

Heimamenn voru þó ekki á þeim buxunum. Andrea Piamonti kom Sassuolo í 3-2 á 82. mínútu og sjálfsmark Federico Gatti innsiglaði 4-2 sigur Sassuolo.

AC Milan tók á móti Verona á heimavelli sínum San Siro. Það var ekki sama markaveislan og í fyrri leiknum. Rafael Leao skoraði eina mark leiksins strax á 8. mínútu og tryggði Milan 1-0 sigur.

Milan er í öðru sæti deildarinnar með 12 stig, jafnmörg stig og Inter en hefur leikið einum leik meira. Juventus er í fjórða sæti með 10 stig.

Lazio var hins vegar aðeins með 3 stig fyrir leik sinn gegn Monza í kvöld. Þeim tókst aðeins að bæta einu stigi í sarpinn því liðin gerðu 1-1 jafntefli. Ciro Immobile skoraði fyrir Lazio úr vít á 12. mínútu en Roberto Gagliardini jafnaði fyrir hlé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×