Fótbolti

Fyrir­liðinn Gló­dís Perla á­berandi í München

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Glódís Perla verður í München til 2026.
Glódís Perla verður í München til 2026. Twitter@FCBfrauen

Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, var á dögunum kynnt til leiks sem fyrirliði þýska stórveldisins Bayern München. Þá framlengdi hún samning sinn við félagið.

Hin 28 ára gamla Glódís Perla gekk í raðir Bayern 2021 en hún hafði áður spilað með Eskilstuna United og Rosengård í Svíþjóð. Síðan þá hefur Glódís Perla verið mikilvægur hlekkur í vörn liðsins og var til að mynda stór ástæða þess að liðið varð meistari heima fyrir á síðustu leiktíð.

Fyrir fimm dögum síðan var svo tilkynnt að Glódís Perla – sem tók við fyrirliðabandi íslenska landsliðsins fyrr á árinu – væri nýr fyrirliði Bayern. Hún er hluti af þriggja manna fyrirliðahóp félagsins en inn á vellinum verður Glódís Perla með bandið.

Ekki nóg með það heldur í gær var staðfest að Glódís Perla hefði framlengt samning sinn við félagið til 2026.

„Við erum lögð af stað í virkilega áhugavert og skemmtilegt ferðalag og það er það sem ég vil vera hluti af. Það er frábært að ég geti verið hérna í þrjú ár í viðbót. Ég er virkilega glöð og vil reyna að leggja eins mikið af mörkum og ég get fyrir liðið,“ sagði Glódís Perla á heimasíðu Bayern eftir undirskriftina.

Í kjölfar tilkynninganna tveggja má segja að Glódís Perla hafi verið áberandi, bæði á samfélagsmiðlum félagsins sem og í miðborg München.

Bayern hikstaði í 1. umferð þýsku úrvalsdeildarinnar en liðið gerði 2-2 jafntefli við Freiburg. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×