Erlent

Óttast þjóð­ernis­hreinsun og reyna að flýja Na­gorno-Kara­bakh

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Armenar mótmæla aðgerðum Asebaídsjan í Nagorno-Karabakh héraði.
Armenar mótmæla aðgerðum Asebaídsjan í Nagorno-Karabakh héraði. EPA

Hersveitir armenskra aðskilnaðarsinna í Nagorno-Karabakh hafa gefist upp fyrir Aserum, sem gerðu atlögu að héraðinu í gær. Þúsundir Armena hafa safnast saman við flugvöll héraðsins og bíða eftir að geta flúið.

Sprengjugnýr hefur ómað í Nagorno-Karabakh héraði í alla nótt og morgun. Vopnahlé var sett á klukkan níu í morgun að íslenskum tíma og eiga viðræður milli Armena í héraðinu og asersrka yfirvalda að eiga sér stað á morgun.

„Aðilar komust að samkomulagi um að fresta aðgerðum gegn hryðjuverkum. Sveitir hér í Armeníu sem eru staðsettar á Karabakh-svæði Lýðveldisins Aserbaídsjan, það er hinar ólöglegu vopnasveitir leggja niður vopn sín, yfirgefa bardagasvæði sín og herstöðvar og afvopnast,“ sagði Anar Eivazov, talsmaður varnarmálaráðuneytis Aserbaídsjan í tilkynningu í dag. 

Armenar og Aserar hafa deilt um Nagorno-Karabakh um árabil og kom þar til mikill átaka árið 2020. Aserar unnu þær erjur á skömmum tíma. Héraðið er hluti af Aserbaídsjan en hefur verið stýrt af Armenum sem eru í miklum meirihluta íbúa þar frá árinu 1994 þegar sex ára stríði um það lauk.

„Þjóðarmorð fer fram“

Frá átökunum árið 2020 hafa Rússar sinnt friðargæslu á svæðinu og hafa komið að friðarviðræðum. Þá hafa friðarsveitirnar flutt konur, börn, aldraða og fatlaða af helstu átakasvæðum og komið fyrir í flóttamannabúðum. Á sama tíma hafa þúsundir safnast saman fyrir utan flugvöll héraðsins í von um að flýja til Armeníu.

Fram kom í tilkynningu sem asersk yfirvöld sendu íbúum í gær að konum, börnum, öldruðum, fötluðum og slösuðum yrði veitt nauðsynleg læknisþjónusta og útvegað vatn og matur. Margir hafa lýst yfir áhyggjum vegna yfirlýsingarinnar og bent á að hvergi sé minnst á karlmenn. Bendi það til að asersk yfirvöld hyggist fara í þjóðernishreinsun með því að beina spjótum að armenskum karlmönnum í Nagorno Karabakh.

„Þjóðarmorð fer fram í Nagormo-Karabakh. Það er ekki stríð þegar sveltandi og vopnlaus þjóð í herkví getur ekki einu sinni barist. Því miður stendur meirihluti þjóðar okkar aðgerðalaus og skilur ekki hvað er á seyði,“ sagði Mikayel Voskanyan, íbúi í Jerevan, höfuðborg Armeníu. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×