Innlent

Boða skyttur Hvals á skotæfingu á sjó

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hvalveiðiandstæðingurinn Paul Watson birti þessa mynd á miðli sínum í gær. Þar sést skotið úr byssu hvalveiðiskips Hvals hf. í Hvalfirði. Myndin er sögð tekin í gær.
Hvalveiðiandstæðingurinn Paul Watson birti þessa mynd á miðli sínum í gær. Þar sést skotið úr byssu hvalveiðiskips Hvals hf. í Hvalfirði. Myndin er sögð tekin í gær. Paul Watson Foundation

Matvælastofnun hefur tjáð Hval hf. að hvalveiðiskipið Hvalur 8 megi fara aftur á veiðar að uppfylltum skilyrðum. Meðal þeirra eru þau að skotæfing fari fram á sjó til að sýna fram á hæfni skyttu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun. Þar segir að stofnunin hafi lokið rannsókn á frávikum við veiðar Hvals 8 og boðað afléttingu með skilyrðum.

Það var þann 14. september sem Matvælastofnun stöðvaði tímabundið veiðar á Hval 8. Ástæðan var sú að 29 mínútur tók að aflífa hval sem Hvalur 8 veiddi þann 7. september, í fyrstu veiðiferð sinni.

Skilyrðin sem Matvælastofnun setur eru eftirfarandi:

  • Skotæfing á sjó þar sem sýnt er fram á hæfni skyttu.
  • Uppfærsla á verklagsreglum þar sem tekið verður mið af athugasemdum beggja eftirlitsstofnanna, Matvælastofnunar og Fiskistofu. Breytingarnar verða að vera samþykktar af báðum eftirlitsstofnunum og kynntar á fullnægjandi hátt fyrir áhöfnum Hvals 8 og 9.

Þessi skilyrði verði að vera uppfyllt áður en veiðar Hvals 8 geta hafist aftur.

Matvælastofnun hefur enn til skoðunar hvort lagt verður á stjórnvaldssekt vegna þessa máls. Eins mun stofnunin áfram fylgjast með framkvæmd veiða og grípa til aðgerða ef önnur alvarleg frávik koma upp.

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., sagði í ítarlegu viðtali við fréttastofu í dag að hann hefði enga hugmynd um hvenær Hvalur 8 fengi að fara aftur á veiðar. 

„Við veiddum þennan hval 7. september. Síðan erum við búnir að veiða sex hvali í viðbót, þá loksins senda þau okkur þetta bréf. Að þau væru að spá í að stoppa skipið. Við fengum nær engan andmælarétt. Voru nær heilan dag að koma þessari spólu til okkar. Eftir að hafa legið yfir þessu í viku að skoða þetta myndband. Þetta er algjörlega fráleit stjórnsýsla,“ segir Kristján.

Hann segir alveg skýrt að bilun í spili á skipinu hafi gert það að verkum að ekki var hægt að aflífa hvalinn fyrr. Óhöpp geti alltaf gerst. 


Tengdar fréttir

Enginn sport­veiði­maður og full­viss um stuðning Ís­lendinga

Kristján Loftsson, forstjóri og stærsti eigandinn í Hval hf., er sannfærður um að íslenskt samfélag standi með honum í baráttunni fyrir áframhaldandi hvalveiðum. Ekki megi taka hvalveiðar út fyrir sviga heldur þurfi að skoða hlutina í samhengi. Jafnvel kíkja í sláturhúsin til samanburðar. Hann kann vel að meta gott hvalkjöt en er enginn sportveiðimaður enda fari hann aldrei til veiða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×