Fótbolti

Kea­ne van­metur Breiða­blik ekki: „Vitum hvers við erum megnugir“

Aron Guðmundsson skrifar
Robbie Keane, þjálfari Maccabi Tel Aviv ræddi við fréttamann Stöðvar 2 og Vísis í Tel Aviv fyrr í dag fyrir komandi leik liðsins gegn Breiðabliki.
Robbie Keane, þjálfari Maccabi Tel Aviv ræddi við fréttamann Stöðvar 2 og Vísis í Tel Aviv fyrr í dag fyrir komandi leik liðsins gegn Breiðabliki. Vísir/Skjáskot

Robbie Kea­ne, fyrrum marka­hrókur í ensku úr­vals­deildinni og nú­verandi þjálfari ísraelska stór­liðsins Mac­cabi Tel Aviv, býst við erfiðum leik gegn Breiða­bliki í riðla­keppni Sam­bands­deildar Evrópu á morgun og varar leik­menn sína við því að van­meta ís­lenska liðið.

Um er að ræða stóra stund fyrir ís­lenskan fót­bolta en þetta verður fyrsti leikur ís­­lensks karla­liðs í riðla­keppni í Evrópu en auk Blika og Mac­cabi Tel Aviv eru belgíska liðið Gent og úkraínska liðið Zor­ya Luhansk einnig í B-riðlinum.

„Ég býst auð­vitað við erfiðum leik,“ segir Robbie Kea­ne, þjálfari Mac­cabi Tel Aviv í sam­tali við Vísi. „Breiða­blik gerði vel á síðasta tíma­bili og öll lið sem eru komin á þetta stig í Evrópu­keppni hljóta að vera á góðu gæða­stigi. Við höfum horft á upp­tökur frá mörgum leikjum Breiða­bliks, þetta verður erfiður leikur en jafn­framt leikur sem okkur hlakkar mikið til að spila.“

Klippa: Robbie Keane - Viðtal

En hvernig hafið þið undir­búið ykkur fyrir þennan leik, hvað þurfið þið að passa upp á í leik Breiða­bliks?

„Við getum bara undir­búið okkur upp að vissu marki með þeim upp­tökum sem við höfum geta skoðað Breiða­blik af. Það hefði auð­vitað verið mikið betra ef að ég og mitt teymi hefðum geta verið á leikjum Breiða­bliks og stúderað þá út frá því en það var ekki mögu­legt í þetta skipti.“

„Við höfum hins vegar greint leiki liðsins í þaula, teljum okkur vita hvar veik­leikar þeirra sem og styrk­leikar liggja. Fyrst og fremst þurfum við bara að ein­beita okkur að okkar leik. Við vitum hvers við erum megnugir og erum hér á heima­velli fyrir framan okkar stuðnings­menn og búumst við góðri stemningu á vellinum sem og góðum leik.“

Kæruleysi og vanmat ekki í boði

Að­spurður um mark­mið Mac­cabi Tel Aviv í Sam­bands­deildinni þetta árið vildi Kea­ne ekki gefa mikið upp:

„Ég horfi að­eins á næsta leik, bara næsta leik og hugsa ekki lengra en það. Það verður enginn auð­veldur leikur í þessum riðli og ég held að allir óttist alla og að allir geti unnið alla. Ein­beiting mín er öll á leik morgun­dagsins.“

Mac­cabi Tel Aviv kemur inn í þessa viður­eign sem reynslu­meira og stærra fé­lagið á þessu sviði þurfið þið að passa ykkur á því að van­meta ekki lið Breiða­bliks?

„Já og við munum gera leik­mönnum það alveg ljóst að kæru­leysi og van­mat er ekki í boði. Það er ekki í boði að horfa á stöðu liðanna með til­liti til sögunnar, við þurfum að ein­blína á það sem er fyrir framan okkur og það er morgun­dagurinn.“

Mac­cabi Tel Aviv hefur ekki verið í þessari keppni ný­lega og því eru margir af mínum leik­mönnum að fá fyrsta smjör­þefinn af þessari keppni á morgun. Í enda dags eru þetta tvö lið með ellefu leik­menn og á rétta deginum geta allir unnið alla. Við þurfum að passa upp á að við séum réttu megin í leiknum á morgun.“

Gengið vel hingað til en eiga langan veg fyrir höndum

Kea­ne tók við þjálfara­stöðunni hjá Mac­cabi Tel Aviv í júní fyrr á þessu ári og hefur gengið afar vel í starfi það sem af er. Mac­cabi hefur ekki tapað leik undir hans stjórn og er sem stendur á toppi ísraelsku úr­vals­deildarinnar. Sjálfur hefur Kea­ne notið þessa stutta tíma hingað til hjá fé­laginu.

„Reynsla mín af fé­laginu í heild sinni er mjög góð en ég hef verið það lengi í boltanum að ég veit að í enda dags er þetta bransi þar sem allt snýst um úr­slitin sem þú nærð í inn á vellinum.

Leik­mennirnir hafa trú á minni hug­mynda­fræði, hafa farið eftir því sem ég bið þá um að gera. Svo snýst þetta um að sýna stöðug­leika, við eigum langan veg fyrir höndum til þess að ná því mark­miði sem ég hef sett mér með þetta lið en ég nýt mín hér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×