Um­fjöllun, við­töl og myndir: Víkingur - KR 2-2 | KR-ingar skemmdu partýið í Foss­voginum

Kári Mímisson skrifar
Það var hart barist á Víkingsvelli í kvöld.
Það var hart barist á Víkingsvelli í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Víkingi mistókst að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu í kvöld eftir 2-2 jafntefli gegn KR á heimavelli. KR átti góða endurkomu í síðari hálfleik eftir að hafa lent 2-0 undir.

Nýkrýndir Bikarmeistarar Víkings tóku á móti KR í efri hluta Bestu deildar karla nú í kvöld. Þetta var fyrsti leikur liðanna eftir að deildinni var tvískipt. KR þurfti nauðsynlega á sigri að halda en liðið er í harðri baráttu um Evrópusæti á meðan Víkingur gat tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri í dag. Eftir afar skemmtilega fótboltaleik fór svo að lokum að liðin skildu jöfn 2-2 þar sem Víkingar skoruðu sín mörk í fyrri hálfleiknum á meðan KR skoraði í þeim seinni.

Ingvar Jónsson handsamar knöttinn í leiknum í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Það tók Víkinga aðeins 10 mínútur að að skorar fyrsta mark leiksins og það gerði Aron Elís Þrándarson. Pablo Punyed tók þá hornspyrnu frá hægri þar sem Aron Elís skallaði örugglega af stuttu færi. Eitthvað hefur klúðrast í talning KR en Aron var aleinn þegar hornspyrnan var tekin og fékk því fína flugbraut og stökk svo manna hæst í teignum. Ótrúlega vel gert hjá Aroni en ég hugsa að þjálfarateymi KR hafi ekki verið ánægt með þetta.

KR-ingar hresstust eftir þetta og náðu að skapa sér ágætis stöður en þó engin alvöru færi. Lið vantaði meiri gæði á síðasta vallar þriðjungi og náðu ekki að fylla boxið af mönnum. Á 31. mínútu tvöfaldaði Danijel Dejan Djuric forystu Víkings eftir skelfileg varnarmistök Kristins Jónssonar. Kristinn gaf þá kærulausa sendingu til baka sem Danijel Dejan Duric stal og skoraði í autt markið þar sem Simen Kjellevold var alveg hræðilega staðsettur þegar Danijel vann boltann.

Theodór Elmar Bjarnason reynir að komast framhjá Gísla Gottskálk Þórðarsyni leikmanni Víkinga.Vísir/Hulda Margrét

Staðan í hálfleik 2-0 fyrir Víkinga og allt stefndi í það að Íslandsmeistaratitillinn yrði tryggður hér í kvöld.

En eitthvað hefur hálfleiksræða Rúnars farið vel í hvítklædda KR-inga sem mættu mun ákveðnari til leiks í seinni hálfleik. Á 52. mínútu tókst þeim að minnka muninn og það gerði Benoný Breki Andrésson eftir frábæra skyndisókn. Víkingar tóku hornspyrnu sem barst til Benonýs sem brunaði af stað og eftir gott samspil við Kristinn Jónsson fékk hann boltann í gegn og skoraði milli fóta Ingvars Jónssonar markvarðar Víkings. Stórglæsileg skyndisókn hjá KR.

KR voru mun sprækari eftir þetta mark og Kennie Chopart fékk ágætis tækifæri til að jafna en inn vildi boltinn ekki. Danijel Dejan Djuric fékk þá sannkallað dauðafæri til að skora þriðja mark Víkings eftir að Birnir Snær Ingason lagði boltann fyrir Danijel sem skaut framhjá af stuttu færi.

Kristinn Jónsson skoraði fyrir KR í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Það var hins vegar á 73. mínútu sem dró til tíðinda þegar KR tókst að jafna leikinn. Það gerði Kristinn Jónsson og það aftur eftir hornspyrnu Víkings. Benoný Breki fékk aftur boltann og fann hann Stefán Árna Geirsson sem tók á rás í átt að marki Víkinga og skaut. Ingvar Jónsson varði skot hans en Kristinn Jónsson náði frákastinu og skallaði þægilega í tómt markið.

Liðin skiptust á að sækja undir lokin og fengu bæði tækifæri til að skora sigurmarkið en inn vildi boltinn ekki. Birnir Snær Ingason fékk frábært tækifæri til að tryggja sigurinn fyrir Víkinga eftir góða sókn Víkinga en Sime Kjellevold varði frá honum. Niðurstaðan hér úr Fossvoginum 2-2 jafntefli.

Af hverju varð jafntefli?

Eftir slæman fyrri hálfleik hjá KR átti liðið mjög góðan seinni hálfleik. Það má segja að þetta hafi verið leikur tveggja hálfleika þar sem Víkingur var betri í þeim fyrri á meðan KR betri í seinni. Áhorfendur voru sviknir um eitt stykki sigurmark þó sem lá í loftinu.

Hverjir stóðu upp úr?

Aron Elís Þrándarson var frábær hjá Víkingum eins og í öllum öðrum leikjum sem hann spilar. Kristinn Jónsson gerði sig sekan um slæm varnarmistök í fyrri hálfleik en bætti fyrir það í þeim seinni með marki og stoðsendingu. Stefán Árni Geirsson átti góða innkomu en maður leiksins í mínum huga er Benoný Breki Andrésson og sá er að vaxa. Á þátt í báðum mörkunum og náði nokkrum sinnum að skapa usla en þarf klárlega að fá fleiri með sér í þetta.

Jóhannes Kristinn Bjarnason og Pablo Punyed börðust á miðjunni.Vísir/Hulda Margrét

Hvað gekk illa?

Ég hugsa að bæði lið séu ósatt með mörkin sem þau fá á sig. Víkingar fá á sig tvö mörk eftir að hafa sjálfir verið að taka hornspyrnu á meðan KR gefa frá sér eitt mark og í hinu fær Aron Elís frían skalla á markteig.

Hvað gerist næst?

KR fær erkifjendur sína í Val í heimsókn á sunnudaginn klukkan 14:00. Valur vann báðar viðureignir liðanna í deildinni ásamt því að sigra KR í Lengjubikarnum, markatalan úr þessum leikjum samtals 11-0 fyrir Val. Víkingur fer í Kópavoginn og mætir þar sínum erkifjendum skulum við segja í Breiðablik á mánudaginn klukkan 19:15. Báðar viðureignir þessara liða hafa verið afskaplega skrautlegar í sumar og ég trúi ekki öðru en að við fáum að sjá einhverja dramatík. Blikar vilja klárlega ekki sjá Víkinga fagna Íslandsmeistaratitlinum á sínum heimavelli í það minnsta.

„Við ætluðum nú að gera það þó við hefðum unnið þennan leik“

Aron Elís fagnar marki sínu.Vísir/Hulda Margrét

Aron Elís Þrándarson var svekktur þegar hann mætti í viðtal strax eftir leik.

„Ég er hundsvekktur. Við erum með unninn leik og mér finnst þeir ekki skapa í raun og veru neitt. Svo fáum við bara tvö horn og lullum til baka og þeir skora tvö mörk.“

En slökuðu þið of mikið í seinni hálfleik?

„Klárlega. Þeir nýttu sér sínar tvær skyndisóknir vel en við fengum samt færi hér í lokin til að klára þetta fannst mér. Mér fannst við ekki nógu góðir í dag og þá sérstaklega ekki í seinni hálfleik. Við eigum að gera betur.“

Þessi úrslita þýða þá að þið þurfið að vinna Blika á Kópavogsvelli í næstu umferð til að tryggja ykkur Íslandsmeistaratitilinn.

„Við ætluðum nú að gera það þótt að við höfðuð unnið þennan leik. Við gerum það þá bara.“

„Ég stórlega efast um það að þeir vilji að við séum að fagna í andlitið“

Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni.Vísir/Hulda Margrét

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga sagðist vera vonsvikinn með stigið miða við hvernig fyrri hálfleikur spilast þegar hann mætti í viðtal.

„Þetta eru vonbrigði miða við hvernig fyrri hálfleikurinn spilaðist og mér fannst það sýnist svolítið í seinni hálfleiknum að það voru þreyttir hausar inn á vellinum, ekki bara þreyttar lappir heldur þreyttir hausar. Það sem gerist þá er að við misstum einbeitinguna eins og mörk KR-inganna sýndu. Fyrra markið gaf þeim svolítið blóð á tennurnar og sjálfstraust af því að þeir voru ekkert inn í leiknum fram að því. Við fengum nægjanlega mikið af tækifærum til að skora eitt ef ekki fleiri mörk eftir að þeir jafna. Á endanum miða við hvernig þetta var orðinn svona pingpong leikur þá held ég að þetta sé bara hið fínasta stig ef maður tekur tillit til þess hvernig svona síðustu dagar hafa verið.“

Arnar segir að það sé svekkjandi að hafa ekki getað gefið aðdáendum liðsins titilinn í kvöld en bendir þó á það að leikurinn tapaðist ekki og að liðið sé svo gott sem búið að vinna titilinn.

Erlingur Agnarsson og Kristinn Jónsson í baráttu.Vísir/Hulda Margrét

„Auðvitað vildum við gefa fólkinu okkar sigur og þar með titilinn. Það eru svona komnir 9 fingur á hann núna miða við hvernig markatalan er. Fyrsta að þetta fór út í þessa þvælu í seinni hálfleiknum þá er allavegana fínt að hafa ekki tapað leiknum. Auðvitað vonbrigði en það vantaði einhvern smá neista í seinni hálfleik.“

Víkingar mæta Breiðablik í næstu umferð. Leikir liðanna hafa verið afar skrautlegir í ár en þetta hafa verið bestu lið landsins undanfarin 3 tímabil. Arnar segir að það sé alltaf gaman að koma í Kópavoginn en hann telur það næsta víst að Blikar eigi eftir að gefa þeim hörkuleik.

„Við viljum fara þangað og ná í þetta stig sem að gulltryggir okkur titilinn. Það er ekkert flóknara en það. Alltaf gaman að koma í Kópavoginn og spila leiki þar. Þeir eru í baráttu um Evrópusæti svo það verður mikið í húfi fyrir bæði lið. Þetta ferðalag heldur áfram og við þurfum bara þetta eina stig til að gulltryggja þetta. Ég stórlega efast um það að þeir vilji að við séum að fagna í andlitið á þeim og það á þeirra eigin heimavelli. Ég held sömuleiðis að nánast hver einn og einasti Víkingur vilji fagna titlinum á Kópavogsvelli þannig þetta verður bara stríð eins og vanalega.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira