Fótbolti

Sveindís og Wolfsburg ætla að vinna Meistaradeildina að þessu sinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir á ferðinni í leik Wolfsburg og Bayer Leverkusen um helgina. Liðið frá bílaborginni vann 3-0 sigur.
Sveindís Jane Jónsdóttir á ferðinni í leik Wolfsburg og Bayer Leverkusen um helgina. Liðið frá bílaborginni vann 3-0 sigur. getty/Selim Sudheimer

Sveindís Jane Jónsdóttir, landsliðskona í fótbolta, segir að Wolfsburg setji stefnuna á að vinna alla þá titla sem í boði eru á tímabilinu.

Keppni í þýsku úrvalsdeildinni hófst um helgina. Wolfsburg vann þá 3-0 sigur á Bayer Leverkusen og skoraði Sveindís eitt marka liðsins. Wolfsburg þurfti að sjá á eftir þýska meistaratitlinum í hendur Bayern München á síðasta tímabili en ætlar að endurheimta hann í vetur. Og gott betur.

„Auðvitað ætlum við að vinna,“ sagði Sveindís, aðspurð um markmið Wolfsburg í vetur. „Við ætlum að taka deildina. Við erum með geggjað lið og eigum möguleika á að vinna allar keppnir sem við tókum þátt í. Við gerum allt sem við getum til að ná eins langt og við getum og gera betur en í fyrra,“ sagði Sveindís.

Wolfsburg komst í úrslit Meistaradeildar Evrópu á síðasta tímabili en tapaði fyrir Barcelona, 3-2, eftir að hafa komist 0-2 yfir. Markmiðið er að taka lokaskrefið í vetur og vinna Meistaradeildina.

„Við komumst í úrslit í fyrra og ætlum að gera það aftur núna og vinna þá,“ sagði Sveindís. Hún gerir ráð fyrir að vera í jafn stóru hlutverki hjá Wolfsburg og á síðasta tímabili. Sveindís lék þá 34 leiki, skoraði níu mörk og lagði upp sjö.

„Ég held það allavega. Auðvitað vil ég byrja inn á í öllum leikjum en það er erfitt. Við erum með fullt af heimsklassa leikmönnum þannig ég geri mitt besta til að vera sem oftast í byrjunarliðinu,“ sagði Sveindís að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×