Innlent

„Megum alls ekki leyfa þessari vit­leysu að dreifast til Ís­lands“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Alexandra Briem sagðist þakklát flokkunum sem sitja í borgarstjórn og sagði alla utan eins flokks, sem situr utan borgarstjórnar, hafa staðið með hinsegin fólki.
Alexandra Briem sagðist þakklát flokkunum sem sitja í borgarstjórn og sagði alla utan eins flokks, sem situr utan borgarstjórnar, hafa staðið með hinsegin fólki.

Alexandra Briem, borgar­full­trúi Pírata, segist þakk­lát flokkum í borgar­stjórn fyrir að sam­einast gegn bak­slagi í réttinda­bar­áttu hin­segin fólks sem hún segir hafa sprungið fram með of­forsi hér­lendis síðustu daga með hætti sem hún hafi ekki átt von á.

Hin­segin­fræðsla annars vegar og kyn­fræðsla hins vegar voru meðal um­ræðu­efnis í borgar­stjórn í dag. Settu allir flokkar nafn sitt undir þver­pólitíska á­lyktun borgar­stjórnar þar sem lýst var yfir stuðningi við hin­segin sam­fé­lagið og gegn for­dómum og hatur­s­orð­ræðu.

Alexandra segist hafa upp­lifað lygar og rætnar per­sónu­legar á­rásir undan­farna daga. Hún segist einnig hafa séð magnaða sam­stöðu þar sem sam­fé­lagið hafi risið upp og sett fram skýr skila­boð um að slík um­ræða ætti ekki erindi hér.

„Ég hef séð mynd af mér í dreifingu á sam­fé­lags­miðlum með texta um að ég sé veik á geði, með vísun til þess að ég sé trans, og um­ræðan sem fylgdi var ekki fal­leg, ég hlut­gerð og talað mjög illa um mig.“

Bak­slagið inn­flutt frá Banda­ríkjunum

Alexandra hélt ræðu í borgar­stjórn í dag vegna á­lyktunarinnar. Þar þakkaði hún flokkum í borgar­stjórn fyrir. Hún sagði bak­slagið nú vera hluta af inn­fluttu menningar­stríði frá Banda­ríkjunum þar sem öllu væri tjaldað til til að skapa ótta og öryggi.

„Það er búið að vinna í því að gera fólk hrætt, af­tengja það frá upp­lýsingum frá öðrum en sam­særis­kenninga­smiðum. Hér eru hópar sem taka upp orð­ræðuna frá sér­stak­lega Banda­ríkjunum í heilu lagi.“

Hún segir mikils virði að slík orð­ræða hafi ekki náð fót­festu í starfi flokkanna sem sitji i borgar­stjórn. Auð­velt væri fyrir stjórn­mála­mann með litla sál að stíga inn í og taka undir ótta sem alið sé á.

„Það er mikils virði og hvað sem öðrum á­greiningi okkar á milli kann að líða, þá er það upp­lífgandi og já­kvætt að ís­lensk stjórn­mál hafi staðið þétt um þá hug­sjón. Það er vörn sem má alls ekki bresta, og það eru ein­beitt öfl sem berjast fyrir því að reka fleig á milli hvar sem þau geta og svífast til þess einskis.“

Her­ferð ekkert öðru­vísi en sú á 9. ára­tug

Alexandra segir að stundum hafi ein­beittir ill­virkjar og stundum sak­laust fólk sem ekki viti betur og viti ekki hvar það á að nálgast réttar upp­lýsingar blandað saman hin­segin­fræðslu og kyn­fræðslu, fræðslu fyrir ung­linga og fræðslu fyrir börn og tekið upp­lýsingar úr sam­hengi, skáldað þær frá gurnni eða sett þær fram í versta mögu­lega ljósi.

„Það er líka á­hyggju­efni að fólkið sem van­treystir yfir­völdum og í­myndaði sér að Al­þjóða­heil­brigðis­stofnunin væri með annar­leg mark­mið í Co­vid far­aldrinum, er farið að tengja það við þessa fræðslu. Ég ætla ekki að fara ná­kvæm­lega út í það, en það er skemmst frá að segja að það er ekki satt.“

Hún segir þessa her­ferð nú í raun ekkert öðru­vísi en til­raunir á 9. og 10. ára­tug til þess að út­mála sam­kyn­hneigt fólk sem barna­perra. Eða til­raunir á fyrstu ára­tugum þessarar aldar til að út­mála trans konur sem ógn við aðrar konur, til dæmis á salernum og búnings­klefum.

„Það er vel skjal­fest að sá á­róður var vís­vitandi búinn til, gegn betri vitund, af sam­tökum hægri­sinnaðra kristinna afla í Banda­ríkjunum, sem vildu ein­fald­lega skapa grýlu til að ota að fólki. Við erum bara að horfa núna á næsta skref í sömu her­ferð.“

Allir flokkar hérlendis utan eins staðið sig

Alexandra segir slík öfl hafa náð sterkri fót­festu í Banda­ríkjunum, Bret­landi, víða í Evrópu, Afríku og annars staðar. Fylki eftir fylki í Banda­ríkjunum snúi við lögum um réttindi trans fólks.

„Við megum alls ekki leyfa þessari vit­leysu að dreifast til Ís­lands og ná hér fót­festu. Allir stjórn­mála­flokkar hér hafa til þessa staðið sig í því hingað til að segja skýrt að þessi bar­átta muni ekki ná hér fót­festu, þeir muni ekki sigla á þau mið að sækja fylgi á kostnað jaðar­setts hóps og þeir muni ekki taka þátt í þeirri upp­lýsinga­ó­reiðu og lygum sem haldið er á lofti.“

Alexandra segir það ekki sjál­fgefið. Í flestum löndum sé ein­hver til í að sigla á þessi mið.

„En fyrir utan einn flokk, sem ekki á sæti í borgar­stjórn, hefur það ekki gerst hér­lendis. Það er magnað og það er eitt skýrasta merki þess að þrátt fyrir mis­munandi for­gangs­röðun og á­herslur, þá geti ég raun­veru­lega sagt að hér tökum við það ekki í mál.“


Tengdar fréttir

Sam­tökin '78 hafi ekkert að gera með kyn­fræðslu

Fræðslu­stýra Sam­takanna '78 segir ekki rétt sem komið hefur fram í um­ræðum um kyn­fræðslu barna og ung­linga á sam­fé­lags­miðlum síðustu daga að sam­tökin fari með kyn­fræðslu í grunn­skólum. Heitar um­ræður hafa skapast um kyn­fræðslu barna í grunn­skólum og skjá­skot úr kennslu­efni sett fram á mis­vísandi hátt.

Náms­efni tekið úr sam­hengi og stillt upp á villandi hátt

Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarið varðandi hinsegin- og kynfræðslu í grunnskólum. Borið hefur á því að villandi og oft röngum upplýsingum sé dreift um samfélagsmiðla, námsefni tekið úr samhengi og því stillt upp á vafasaman hátt.

Mikil­vægt að finna fyrir stuðningi þögla meiri­hlutans

Hinsegin fólk og aðstandendur þeirra komu saman á samstöðufundi í kvöld vegna harðrar umræðu sem hefur átt sér stað að undanförnu. Varaformaður Samtakanna '78 segir fundinn hafa verið gríðarlega mikilvægan og það sé gott að finna fyrir stuðningi hins þögla meirihluta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×