Innlent

Mál Alberts komið til á­kæru­sviðs

Árni Sæberg skrifar
Rannsókn á máli Alberts Guðmundssonar er lokið.
Rannsókn á máli Alberts Guðmundssonar er lokið. Vísir/Jónína

Rannsókn á máli knattspyrnumannsins Alberts Guðmundssonar er lokið og það er komið á borð ákærusviðs Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta staðfestir Bylgja Hrönn Baldursdóttir, lögreglufulltrúi hjá kynferðisbrotadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi.

Albert, sem leikur með Genóa á Ítalíu og öllu jöfnu íslenska karlalandsliðinu, var kærður fyrir kynferðisbrot um miðjan ágúst síðastliðinn og fær ekki að koma fram fyrir Íslands hönd á fyrr en mál hans hefur verið leitt til lykta.

Albert hefur hefur hafnað öllum ásökunum um kynferðisbrot.

„Ég er saklaus af þeim ásökunum sem komið hafa fram. Ég mun ekki tjá mig frekar á meðan málið er til rannsóknar,“ sagði Albert í stuttri yfirlýsingu til fjölmiðla þann 24. ágúst.

Stuttur rannsóknartími

Bylgja Hrönn segir að rannsókn á máli Alberts hafi formlega verið lokið í gær og það sent áfram til ákærusviðs. Rannsóknartími málsins var því aðeins um einn mánuður, en fáheyrt er að rannsóknir kynferðisbrota taki svo skamman tíma.

Í skýrslu starfshóps Ríkissaksóknara um málsmeðferðartíma kynferðisbrota segir að meðalafgreiðslutími lokinna mála hjá í lögregluhluta kerfisins hafi verið 342,9 dagar árið 2021.

Bylgja Hrönn segir að ýmislegt geti skýrt skamman rannsóknartíma en að hún geti ekki tjáð sig um einstök mál.

Mál Alberts er sem áður segir komið á borð ákærusviðs. Þar verður ákveðið hvort það þarfnist frekari rannsóknar, rannsókn verði hætt eða það verði sent áfram til héraðssaksóknara til ákærumeðferðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×