Innlent

Engar til­kynningar um skriðu­föll en á­fram mikil rigning

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Miklar aurskriður féllu á Seyðisfirði í desember 2020. Þar er nú hættustig í gildi vegna mikillar úrkomu. 
Miklar aurskriður féllu á Seyðisfirði í desember 2020. Þar er nú hættustig í gildi vegna mikillar úrkomu.  Vísir/Egill Aðalsteinsson

Engar fréttir hafa borist af skriðuföllum á Seyðisfirði þar sem hættustig Almannavarna er í gildi. Þó er vel fylgst með gangi mála þar sem áfram er búist við mikilli rigningu. Rýmingum verður ekki aflétt í dag.

Hættustigi Almannavarna var lýst yfir á Seyðisfirði klukkan 18 í gær og voru hús rýmd vegna ástandsins. Í nótt rigndi mikið en Sveinn Brynjólfsson á skriðuvakt Veðurstofunnar segir þó allt enn innan marka.

„Við búumst við því að það rigni hressilega í allan dag og það dragi ekki almennilega úr þessu fyrr en í nótt. Árnar uxu mikið en eru allar í farvegum sínum. Við sjáum engar hreyfingar enn þá og það eru engar skriður sem við sjáum.“

Á Austfjörðum er appelsínugul viðvörum í gildi vegna mikilla vatnavaxta. Þar er spáð mikilli rigningu áfram í allan dag og segir Sveinn að grannt sé fylgst með stöðu mála. Viðvörunin er í gildi til miðnættis. Þá er gul viðvörun vegna rigninga á Austurlandi að Glettingi. 

Íbúar hugi að niðurföllum

Á fjórða tug húsa voru rýmd á Seyðisfirði í gær. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sagði Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri Almannavarna að stærstur hluti húsanna séu atvinnuhúsnæði. Aðspurð um hvort íbúar þurfi að hafa áhyggjur sagði Hjördís: „Íbúar hafa án efa áhyggjur af staðnum. Maður getur rétt ímyndað sér hvernig það er að upplifa þetta aftur.“

Þá hvatti hún fólk til að fylgjast vel með og huga sérstaklega að niðurföllum.

Uppfært klukkan 09:55.

Í tilkynningu frá Almannavörnum kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir að rýmingum verði aflétt í dag, þar sem áfram sé spáð talsverði úrkomu á Austfjörðum. 

„Vel er fylgst með af hálfu Veðurstofu, meðal annars í lækjarfarvegum í byggð og í hlíðum. Veðurspá gerir ráð fyrir að það dragi úr úrkomu um miðnætti í nótt,“ segir í tilkynningunni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.