Fótbolti

Róm­verjar skoruðu sjö í lang­þráðum sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dybala átti góðan leik í kvöld.
Dybala átti góðan leik í kvöld. EPA-EFE/GIUSEPPE LAMI

Roma er loks komið á blað í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Liðið vann 7-0 sigur á Empoli í lokaleik kvöldsins.

Rómverjar hafa ekki riðið feitum hesti í upphafi tímabils en fyrir leik kvöldsins hafði liðið aðeins náð í eitt stig úr þremur leikjum. Það breyttist snarlega en strax á annarri mínútu fengu Rómverjar vítaspyrnu sem Paulo Dybala skoraði úr.

Renato Sanches tvöfaldaði svo forystuna á 8. mínútu og brekkan orðin ansi brött fyrir Empoli. Alberto Grassi varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 35. mínútu og staðan því 3-0 Roma í vil þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Í síðari hálfleik bætti Dybala við öðru marki sínu áður en Bryan Cristante skoraði fimmta mark Rómverja. Belgíski framherjinn Romelu Lukaku skoraði það sjötta áður en Gianluca Mancini sá til þess að stuðningsfólk liðsins fór heim í sjöunda himni.

Lokatölur í Róm 7-0 heimamönnum í vil og liðið loks komið á blað. Roma situr í 12. sæti með fjögur stig að loknum fjórum leikjum. Empoli er án stiga á botninum og á enn eftir að skora mark.

Önnur úrslit í Serie A

  • Cagliari 0-0 Udinese
  • Frosinone 4-2 Sassuolo
  • Monza 1-1 Lecce
  • Fiorentina 3-2 Atalanta



Fleiri fréttir

Sjá meira


×