Innlent

Ágúst skipaður for­stöðu­maður Lands og skógar

Árni Sæberg skrifar
Ágúst Sigurðsson verður fyrsti forstöðumaður Lands og skógar.
Ágúst Sigurðsson verður fyrsti forstöðumaður Lands og skógar. Stöð 2/Sigurjón

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur ákveðið að skipa Ágúst Sigurðsson sem forstöðumann Lands og skógar, nýrrar stofnunar sem verður til við sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar.

Þetta segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Það segir að Ágúst hafi hlotið doktorsgráðu í erfðafræði frá sænska Landbúnaðarháskólanum í Uppsölum árið 1996 og útskrifast með B.Sc. gráðu frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri árið 1989.

Ágúst hafi verið sveitarstjóri Rangárþings ytra frá árinu 2014 til 2022 og rektor við Landbúnaðarháskóla Íslands frá árinu 2004 til 2014 þar sem hann stýrði meðal annars sameiningu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Garðyrkjuskóla ríkisins. 

Þá hafi Ágúst starfað sem landsráðsnautur í búfjárerfðafræði og hrossarækt hjá Bændasamtökum Íslands frá árinu 1996 til 2004.

Ágúst hafi setið í stjórnum, ráðum, nefndum og hópum tengdum meðal annars landbúnaði, landgræðslu, hrossarækt og háskólamálum. Hann hafi ritað fjölda vísindagreina í alþjóðlegum ritrýndum vísinda- og ráðstefnuritum ásamt greinum í fagtímarit og blöð.

Erfitt starf

Land og skógur tekur formlega til starfa þann 1. janúar 2024. Embætti forstöðumanns var auglýst í júní síðastliðnum og sóttu níu um embættið. Hæfnisnefnd var ráðherra til ráðgjafar við mat á umsækjendum.

Þrátt fyrir að hlutverk hinna tveggja sameinuðu stofnana sé um margt sambærilegt, það er að græða upp landið, hafa oft komið upp deilur milli Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Það er að landgræðslufólk og skógræktarfólk hefur tekist hart á um aðferðir og þeim tegundum sem plantað er. 

Því er ljóst að Ágúst gæti því átt ærið verk fyrir höndum að sætta hópana.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×