Erlent

Þing­manni sparkað úr leik­húsi: „Veistu ekki hver ég er?“

Árni Sæberg skrifar
Lauren Boebert er öldungardeildarþingmaður Repúblikana.
Lauren Boebert er öldungardeildarþingmaður Repúblikana. Patrick Semansky/AP

Lauren Boebert, fulltrúadeildarþingmanni í Bandaríkjunum, var sparkað úr leikhúsi í Denver í gærkvöldi fyrir að hafa reykt rafsígarettu, verið í símanum og með háreysti.

Þetta segir í frétt The Denver Post um atvikið. Í tilkynningu frá leikhúsinu segir að tveimur gestum hafi verið vísað á dyr eftir ítrekaðar kvartanir frá öðrum leikhúsgestum. Í tilkynningu er Boebert ekki nafngreind, en í upptökum úr öryggismyndavélum sést greinilega að um þingmanninn er að ræða. Samanklippt myndskeið frá AP fréttaveitunni má sjá hér að neðan: 

Aðstoðarmaðurinn staðfestir atvikið

Blaðamaður Denver Post hafði samband við Drew Sexton, aðstoðarmann Boebert, sem staðfesti að um hana hafi verið að ræða í leikhúsinu. 

„Ég get staðfest ótrúlegan og hneykslanlegan orðróm um að Boebert þingkona sé stuðningsmaður sviðslistanna í frítíma sínum og, örfáum til armæðu, að hún hafi notið sýningarinnar Beetlejuice ákaft um helgina.“

Beetlejuice er Broadway-söngleikur eftir samnefndri kvikmynd Tims Burton, sem er nú á ferðalagi um Bandaríkin.

Sexton þvertekur fyrir það að Boebert hafi reykt rafsígarettu og segir að hún hafi aðeins verið að skemmta sér. Þá hvetur hann alla til þess að fara á leiksýninguna en einnig til þess að skilja símann eftir heima til öryggis.

Hringdu á lögreglu

Í tilkynningu frá leikhúsinu er haft eftir sætavísi að hann hafi varað Boebert og félaga hennar við í hléi að þeim yrði vísað á dyr, létu þau ekki af háttsemi sinni, eftir að hafa fengið fjölda kvartana frá leikhúsgestum.

Þau hafi þó haldið áfram uppteknum hætti eftir hlé og hann því vísað þeim á dyr en þau setið sem fastast. Þá hafi hann sagst ætla að hringja til lögreglu og Boebert hvatt hann til þess.

Á meðan þau voru leidd út úr leikhúsinu hafi Boebort sagt hluti á borð við „veistu ekki hver ég er?“, „ég sit í stjórninni [leikhússins] og „ég hef samband við borgarstjórann.“  



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×