Fótbolti

Ekki möguleiki að Klopp taki við þýska landsliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Einhver bið verður á því að Jürgen Klopp taki við þýska landsliðinu.
Einhver bið verður á því að Jürgen Klopp taki við þýska landsliðinu. getty/Andrew Powell

Ekki kemur til greina að Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, taki við þýska landsliðinu. Þetta segir umboðsmaður hans.

Hansi Flick var rekinn sem þjálfari þýska landsliðsins eftir 1-4 tap fyrir Japan í vináttulandsleik á laugardaginn. Þjóðverjar unnu ekki síðustu fimm leiki sína undir stjórn Flicks og mistókst að komast upp úr sínum riðli á HM í Katar.

Þýska knattspyrnusambandið er því í þjálfaraleit nú þegar átta mánuðir eru þar til Þjóðverjar halda EM 2024. Ýmsir hafa verið orðaðir við starfið, þar á meðal Klopp. Ef marka má umboðsmann hans, Marc Kosicke, eru samt engar líkur á því að Klopp taki við þýska landsliðinu.

„Jürgen er með langtímasamning við Liverpool og kemur ekki til greina sem landsliðsþjálfari,“ sagði Kosicke. Samningur Klopps við Liverpool gildir til 2026. Hann tók við liðinu haustið 2015.

Meðal annarra sem hafa verið orðaðir við starf landsliðsþjálfara Þýskalands eru Julian Nagelsmann og Oliver Glasner.

Rudi Völler stýrði Þýskalandi þegar það vann 2-1 sigur á Frakklandi í vináttulandsleik í gær. Thomas Müller og Leroy Sané skoruðu mörk Þjóðverja. Næstu leikir þýska landsliðsins eru gegn Bandaríkjunum og Mexíkó um miðjan október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×