Fótbolti

Þjálfari Lúxem­borgar fékk nóg þegar lið hans var átta mörkum undir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Luc Holtz hefur stýrt Lúxemborg frá 2010.
Luc Holtz hefur stýrt Lúxemborg frá 2010. Carlos Rodrigues/Getty Images

Luc Holtz fékk nóg þegar Lúxemborg var 8-0 undir gegn Portúgal í undankeppni EM 2024 í knattspyrnu. Hann strunsaði þá til búningsklefa og missti af síðasta marki leiksins, Portúgal vann leikinn 9-0.

Eftir að hafa unnið frækinn 3-1 sigur á Íslandi og verið almennt að spila vel í undanförnum leikjum fékk Lúxemborg gríðarlegan skell í Portúgal. Gestirnir sáu aldrei til sólar og fengu á sig níu mörk. Sannkallað afhroð frá A til Ö.

Það má áætla að leikplan Holtz, þjálfara liðsins, hafi engan veginn gengið upp en hann skildi leikmenn sína eftir bókstaflega eina þegar hann stóð upp og gekk til búningsherbergja þegar Bruno Fernandes skoraði áttunda mark heimamanna á 83. mínútu.

Holtz var því hvergi sjáanlegur á hliðarlínunni þegar João Félix skoraði níunda markið á 88. mínútu leiksins. Lokatölur 9-0 og Portúgal hefur nú unnið alla sex leiki sína í undankeppninni, markatala liðsins er 24-0.

Lúxemborg er í 3. sæti J-riðils með 10 stig að loknum sex leikjum, þremur á eftir Slóvakíu í 2. sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×