Umfjöllun: Lúxem­­­borg - Ís­land 3-1 | Martröð í Lúxemborg

Stefán Árni Pálsson og Árni Jóhannsson skrifa
12jóihulda
Vísir/Hulda Margrét

Íslenska karlalandsliðið mátti þola ósigur á útivelli gegn Lúxemborg í kvöld. Liðið var slappt bæði andlega og líkamlega. Ísland lenti snemma undir og komst aldrei í takt við eitt eða neitt og úr varð martraðakenndur leikur sem fellur í gleymskunnar dá sem fyrst því það er leikur á mánudag. Lúxemborg vann 3-1 og hefði getað unnið stærra. Það er mikið að hugsa um fyrir Åge Hareide þessa dagana.

Það var mikið talað um að íslenska liðið ætlaði að setja í fimmta gírinn og keyra á Lúxemborg en gírkassinn hjá íslenska liðinu er ekki vel stilltur greinilega þessa dagana. Liðið missti boltann frá sér og kom sér í klandur strax í upphafi leiks og það átti eftir að vera saga leiksins. 

Martröðin hefst

Strax á áttundu mínútu fengu Lúxemborg dæmda vítaspyrnu, sem var mjög ódýr fannst manni, sem var skoðuð mikið í VAR-sjánni. Ísland tapaði boltanum og misstu svo sendingu inn fyrir línuna sína þannig að Barreiro var við það að komast í boltann en lenti í samstuði við Rúnar Alex í markinu sem þó lagði hendur í örskamma stund á manninn. Barreiro féll við og dómarinn var ekki viss með það hvort hann ætlaði að dæma vítaspyrnu. 

Dómarinn fékk þó meldingu um það í eyra að hann þyrfti að skoða málið betur og var sendur í skjáinn til að mynda sér skoðun. Hann komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri víti og það varð úr að Maxime Chanot steig á punktinn og sendi boltann í mitt markið á meðan Rúnar skutlaði sér til hægri.

Staðan 1-0 fyrir Lúxemborg og vonaði maður að það myndi kveikja í liðinu en svo varð aldeilis ekki. Það var einbeitingarleysi í liðinu lengi vel í fyrri hálfleik sem orsakaði það að heimamenn komust í nokkur skipti í góðar stöður og áttu greiða leið í gegnum vörn Íslands. Í eitt skipti þurfti Rúnar Alex að taka á honum stóra sínum þegar Alessio Curci komst einn í gegn eftir að Hörður Björgvin gerðist sekur um að stara út í loftið og það ekki í fyrsta skiptið í leiknum. Hann náði sér í gult spjald á 39. mínútu þegar hann hleypti manni í gegn og þurfti að taka hann niður. Það átti eftir að draga dilk á eftir sér.

Rétt úr kútnum

Íslenska liðið náði þó að rétta úr kútnum eftir því sem leið á fyrri hálfleik og byrjuðu að vinna boltann á góðum stöðum og komust fljótt í góð færi. Alfreð Finnbogason komst í besta færið og var nærrum því einn á móti markverði. Hann hótaði að skjóta í fjærhornið en reyndi svo að skjóta í nær hornið en missti jafnvægið og Moris í markinu varði í horn.

Jón Dagur Þorsteinsson komst einnig í gott færi en skot hans var í varnarmann og síðan var hreinsað í burtu. Það var því von í brjósti manns þegar gengið var til búningsherbergja í stöðunni 1-0 fyrir Lúxemborg.

Íslenska landslðið kom út í seinni hálfleik og það var fljótt augljóst að það hafi verið glórulaust að hafa einhverja von um að endurkoma væri á leiðinni hjá landslðiðinu okkar. Menn virkuðu andlausir, orkulausir og hugmyndasnauðir. Það virkaði þannig á mann að það var ekkert í kortunum varðandi það að liðið myndi skora í kvöld en þegar munurinn er bara eitt mark þá er alltaf hægt að vona.

Martröðin ágerist

Sjötugasta mínúta rann upp í leiknum án þess að nokkuð væri að fara að gerast hjá íslenska liðinu en þá versnaði martröðin hjá íslenska liðinu. 

Lúxemborg tvöfaldaði forskot sitt þegar Yvandro Borges Sanches komst einn í gegn og setti boltann framhjá Rúnari Alex í markinu. Guðlaugur Victor gerði sig þá sekan um hrikalega slæm mistök, gætti ekki að sér og gaf boltann beint í lappirnar á leikmanni heimamanna og á svipstundu þá var Sanches kominn einn í gegn. Hörður Björgvin reyndi að ná í hann en sleppti því að brjóta og Sanches gat komist inn í vítateig og skorað. Þannig var róðurinn orðinn mjög þungur.

Þremur mínútum síðar varð róðurinn ómögulegur og langt í land. Hörður Björgvin var þá að senda boltann til baka á Rúnar í markinu en um leið og hann sendi þá klessti hann utan í sóknarmann heimamanna sem ætlaði að elta sendinguna. Það var algjör óþarfi að gera og uppskar hann réttilega gult spjald og var sendur í sturtu og afleitum leik hans lokið.

Við þetta, náttúrlega, minnkaði orkan hjá Íslandi og Lúxemborg náði fínum tökum á leiknum og voru líklegri til að bæta við. Það hinsvegar rofaði til á 89. mínútu þegar Hákon Arnar Haraldsson spændi upp vörn heimamanna og skoraði glæsilegt mark með góðu skoti af vítateigslínunni. Það kviknaði von því Ísland er með leikmenn í sínum röðum sem búa yfir einstaklingsgæðum sem geta breytt leikjum.

Sú von var kæfð tveimur mínútum síðar þegar Lúxemborg gerði þriðja mark sitt. Aftur gerðu Íslendingar sig seka um mistök, misstu boltann á slæmum stað og hleypa Lúxemborgurum í gegnum vörn sína. Danel Sinani vann þá boltann, geystist af stað og kláraði færið með miklum bravör. 

Þar með var leiknum algjörlega lokið og biðin eftir lokaflauti dómarans tók við. Heimamenn skoruðu eitt mark í viðbót þó en það var réttilega dæmt af vegna rangstæðu. Lúxemborg átti hinsvegar alveg skilið að skora þetta fjórða mark en það stóð ekki. Skömmu síðar var flautað til leiks. 

Vonin um annað sætið í þessum riðli er úti en Lúxemborg er komið í harða baráttu um að komast á EM í fyrsta sinn. Það verður ekkert tekið af Lúxemborg, þeir spiluðu vel og voru sprækir og kvikir út á velli, en íslenska liðið gerðu þeim þetta heldur auðvelt fyrir.

Afhverju tapaði Ísland?

Það er af nægu að taka. Það var einbeitingarleysi, orkuleysi og má segja áhugaleysi á að standa sig vel í þessum leik. Mistökin sem gerð voru út á velli og í báðum teigum voru afleit og dýrkeypt og orsökuðu þrjú mörk fengin á sig og það að Hörður Björgvin mun vera í banni á mánudaginn gegn Bosníu.

Hvað gekk vel?

Ekkert hjá Íslandi. Lúxemborg hinsvegar náði að spila sinn leik. Það er augljóst að stigasöfnun þeirra er engin heppni það sem af er keppni og eiga þeir allt skilið sem þeir hafa náð í. Þeir voru mjög kvikir og nýttu mistökin hjá Íslandi til fullnustu og uppskáru stigin þrjú.

Bestir á vellinum?

Það er fátt um fína drætti. Rúnar Alex gerði alveg vel í nokkrum stöðum en hann fékk þrjú mörk á sig en gat kannski ekki mikið gert í þeim. Jóhann Berg Guðmundsson slapp best frá leiknum í kvöld og Hákon Haraldsson skoraði stórglæsilegt mark.

Hvað næst?

Næst er það leikur gegn Bosníu á heimavelli næstkomandi mánudagskvöld. Okkar menn þurfa að hífa upp um sig brækurnar og verja heimvöllinn sinn. Hugurinn er mögulega kominn við það að mögueleikinn á að komast til Þýskalands á næsta ári liggur í umspili sem fram fer næsta vor. Við þurfum að byggja upp sjálfstraust sem er örugglega í molum eftir kvöldið í kvöld.


Tengdar fréttir

Alfreð: Ég býst við því að gera betur í svona færum

Alfreð Finnbogason leiddi sóknarlínu Íslands í kvöld þegar liðið tapaði fyrir Lúxemborg 3-1 á útivelli í undankeppni EM 2024. Hann var að sjálfsögðu svekktur með ýmsa hluti í leiknum og þá sérstaklega það að leikmenn Íslands hafi ekki verið skarpir í báðum teigum leiksins.

Einkunnir leikmanna íslenska liðsins: Hörður Björgvin átti slakt kvöld

Frammistaða íslensku leikmannanna í tapinu gegn Lúxemborg ytra í undankeppni EM 2024 í kvöld var ekki upp á marga fiska. Varnarlína íslenska liðsins var hvað eftir annað grátt leikin, of mikið bil var á milli línanna hjá liðinu og ekki tókst að skapa nógu mörg færi. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira