Erlent

Verður að skrá sig og vera heima ef það vill leigja út til skemmri tíma

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stórar fjölskyldur geta ekki lengur leigt íbúð til skemmri tíma í New York í gegnum fyrirtæki á borð við Airbnb.
Stórar fjölskyldur geta ekki lengur leigt íbúð til skemmri tíma í New York í gegnum fyrirtæki á borð við Airbnb.

Nýjar reglur um skammtímaleigu íbúðarhúsnæðis hafa tekið gildi í New York, sem forsvarsmenn Airbnb hafa sagt jafngilda „banni“ gegn fyrirtækinu og öðrum í sama bransa. 

Samkvæmt reglunum mega eigendur íbúða nú aðeins leigja þær út í minna en 30 daga í einu ef þeir hafa skráð sig hjá borgaryfirvöldum og skuldbinda sig til að vera heima í húsnæðinu á meðal dvöl leigjandans stendur.

Þá má ekki leigja íbúð eða herbergi út til fleiri en tveggja einstaklinga í einu, sem þýðir að stærri fjölskyldur geta ekki lengur nýtt sér þjónustu fyrirtækja á borð við Airbnb í New York.

Reglurnar voru settar fyrir nokkru síðan en hafa verið til umfjöllunar hjá dómstólum þar til nú. 

Tilgangurinn með þeim er að koma til móts við fjölda íbúa borgarinnar, sem segja heilu fjölbýlishúsin vera orðin eins og hótel þar sem ókunnugir koma og fara allan sólahringinn, alla daga. Þá segja gagnrýnendur að þessi nýja útleigumenning hafi orðið til þess að ýta undir húsnæðisskort, sem hafi verið mikill fyrir.

Aðrir íbúar, sem hafa haft tekjur af því að leigja út húsnæðið sitt, segja hins vegar grafið undan tekjum þeirra en talsmenn Airbnb segja marga reiða sig á leigutekjur til að ná endum saman.

„Borgin er að senda skýr skilaboð til milljóna mögulegra ferðamanna sem hafa nú úr færri kostum að velja þegar þeir heimsækja New York: Þú ert ekki velkominn,“ segir Theo Yedinsky, framkvæmdastjóri alþjóðadeildar Airbnb.

Aðeins 3.800 hafa sótt um skráningu hjá borgaryfirvöldum og af þeim umsóknum hafa aðeins 300 verið samþykktar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×