Fótbolti

Van Dijk ekki sam­mála því að allt hafi verið gert til að Messi ynni HM

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Virgil van Dijk er ekki sammála fyrrverandi þjálfara sínum.
Virgil van Dijk er ekki sammála fyrrverandi þjálfara sínum. EPA-EFE/Abir Sultan

Virgil van Dijk, fyrirliði hollenska landsliðsins í knattspyrnu, er ekki sammála fyrrverandi þjálfara liðsins að allt hafi verið gert til að Lionel Messi og Argentína yrðu heimsmeistarar í Katar undir lok síðasta árs.

Fyrr í dag greindi Vísir frá því að Louis van Gaal, þjálfari hollenska landsliðsins á HM í Katar, hafi látið þau orð falla að allt hafi verið gert til þess að Messi myndi standa uppi sem heimsmeistari.

Argentína sló Holland, sem Van Gaal stýrði, úr leik í átta liða úrslitum á HM á dramatískan hátt. Argentínumenn unnu 4-3 í vítaspyrnukeppni eftir mikinn hitaleik þar sem sextán gul spjöld fóru á loft. Það er met á HM. Van Gaal segir að atburðarrásin á HM hafi verið hönnuð með það fyrir augum að Messi og Argentína yrðu heimsmeistarar.

„Ég vil ekki segja mikið um þetta. Þegar þú sérð hvernig Argentína skorar mörkin sín og við skorum mörkin okkar og hvernig sumir leikmenn argentínska liðsins fóru yfir strikið án þess að vera refsað þá held ég að þetta hafi allt verið fyrirfram ákveðið,“ sagði Van Gaal við NOS í Hollandi.

„Ég stend við allt sem ég segi. Að Messi hafi átt að verða heimsmeistari? Ég held það, já.“

Fyrirliðinn Van Dijk sagðist ekki geta tekið undir ummæli fyrrverandi þjálfara síns þegar hann var spurður út í þau.

„Ég heyrði ummælin í morgun og það nær í raun ekki lengra. Þetta er auðvitað hans skoðun. Allir hafa rétt á sinni skoðun, allir mega hafa skoðun. Ég er þó ekki sömu skoðunar,“ sagði Van Dijk.

Holland mætir Grikklandi og Írlandi í undankeppni EM 2024 á næstu dögum. Sem stendur er liðið með þrjú stig í B-riðli eftir 4-0 tap gegn Frakklandi en 3-0 sigur á Gíbraltar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×