Fótbolti

Leikmenn spænska karlaliðsins fordæma hegðun Rubiales

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Luis Rubiales hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir hegðun sína eftir úrslitaleik HM.
Luis Rubiales hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir hegðun sína eftir úrslitaleik HM. Catherine Ivill/Getty Images

Leikmenn spænska karlalandsliðsins í knattspyrnu fordæma hegðun Luis Rubiales, forseta spænska knattspyrnusambandsins eftir úrslitaleik HM kvenna þar sem spænska kvennalandsliðið tryggði sér sinn fyrsta heimsmeistaratitil í sögunni.

Rubiales hefur verið harðlega gagnrýndur eftir úrslitaleik HM þar sem hann smellti rembingskossi á Jenni Hermoso gegn hennar vilja er verðlaunaafhendingin fór fram. Rubiales fullyrðir þó að kossinn hafi verið með samþykki Hermoso.

Í kjölfarið var Rubiales svo settur í 90 daga bann frá afskiptum af knattspyrnu af FIFA, en hann hefur þó harðneitað að segja af sér sem forseti spænska knattspyrnusambandsins.

Nú hafa leikmenn spænska karlalandsliðsins sent Hermoso, og kvennalandsliðinu öllu, stuðningsyfirlýsingu þar sem þeir segjast fordæma hegðun forsetans.

„Við höfnum því sem við teljum vera óviðeigandi hegðun af hálfu herra Rubiales, sem hefur brugðist skyldum sínum fyrir þá stofnun sem hann er í forsvari fyrir,“ sagði Alvaro Morata í yfirlýsingu fyrir hönd spænska landsliðsins.

„Við stöndum þétt við bakið á þeim gildum sem þessi íþrótt stendur fyrir.“

„Spænskur fótbolti á að vera drifkraftur virðingar, innblásturs, þátttöku og fjölbreytileika og sýna fordæmi með hegðun sinni innan sem utan vallar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×