Erlent

Scholz með lepp fyrir auga eftir hlaupaslys

Kjartan Kjartansson skrifar
Þýskaland er ekki á valdi sjóræningja þó að Olaf Scholz kanslara svipi til þeirra eftir óhappið um helgina.
Þýskaland er ekki á valdi sjóræningja þó að Olaf Scholz kanslara svipi til þeirra eftir óhappið um helgina. Olaf Scholz/Instagram

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, birti mynd af sér með lepp fyrir auganu í morgun. Kanslarinn aflýsti viðburðum um helgina eftir að hann hrasaði og datt á andlitið þegar hann var úti að skokka.

Óhappið átti sér stað á laugardag. Marðist Scholz á andliti og aflýsti dagskrá sinni í gær. Hann átti að koma fram á viðburðum í sambandslandinu Hesse í tengslum við sambandslandskosningar sem fara fram þar 8. október, að sögn Deutsche Welle.

Scholz, sem er 65 ára gamall, er sagður við ágæta heilsu þrátt fyrir byltuna. Hann á annasama viku fyrir vændum. Á miðvikudag á hann að kynna fjárlög ríkisstjórnarinnar og á föstudag flýgur hann til Nýju Delí á Indlandi til að vera viðstaddur G20-fund.

Létt virtist yfir Scholz þegar hann birti mynd af sjálfum sér með lepp fyrir hægra augana á samfélagsmiðlinum Instagram í morgun. Þar sagðist hann búast við því að gert yrði grín að honum og að hann biði eftir að vera gerður að minni (e. meme) á samfélagmiðlum.

„Takk fyrir batakveðjurnar. Þetta lítur verr út en það er!“ sagði í færslu Scholz.

https://www.dw.com/en/germanys-scholz-falls-while-jogging-cancels-appointments/a-66704954

Kanslarinn var ekki mikið fyrir íþróttir á sínum yngri árum. Hann segir að Britta Ernst, eiginkona sín, hafi kynnt hann fyrir skokki og hann reyni nú að skokka á hverjum degi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×