Innlent

Töldu í fyrstu að kona væri í húsinu

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Í fyrstu var talið að kona væri föst í húsinu en hún reyndist hafa komist út af sjálfdáðun.
Í fyrstu var talið að kona væri föst í húsinu en hún reyndist hafa komist út af sjálfdáðun. Björgunarsveitin Sigurvon, Tómas Logi

Björgunarsveitir á Suðurnjesjum voru kallaðar út í gærkvöldi þegar varnargarður brast og sjór umlukkti íbúðarhús. Í fyrstu var talið að kona væri föst í húsinu en svo reyndist ekki vera.

Sjóbjörgunarsveitinni Sigurvon í Sandgerði barst útkall um klukkan níu í gærkvöldi. 

„Þá voru fyrstu fréttir að sjóvarnagarðar væru farnir og að það væri allt á kafi í sjó,“ segir Tómas Logi Hallgrímsson samskiptastjóri sveitarinnar, sem kom að aðgerðum í gærkvöldi.

„Þegar nær dregur fáum við upplýsingar um það að þetta sé íbúðarhús sem sé að fara á kaf og að það sé kona föst inni í húsinu. Þegar við komum á staðinn var konan nú ekki föst í húsinu, hún er komin út en þurfti að vaða alveg upp að hnjám. En húsið var að hluta til alveg á kafi í sjó, alveg upp að tveimur hliðum á húsinu.“

Samverkandi þættir eins og háflóð og mikill vindur urðu til þess að varnargarðar brustu og sjór flæddi að.Björgunarsveitin Sigurvon, Tómas Logi

Betur fór á horfðist í byrjun að sögn Tómasar.

„Það kom ekki til þess að við þyrftum að hlaða sandpokum fyrir hurðar vegna þess að það var það hátt upp í gólfplötu á húsinu þannig að það slapp til og það er enginn kjallari í húsinu. Mitt mat var að það þyrfti ekki að taka rafmagn af húsinu en ég veit ekki hvort það hafi verið gert eftir að við fórum.“

Hann telur að konan sem var í húsinu hafi ekki verið í hættu á neinum tímapunkti.

Henni var mjög brugðið og skiljanlega, ég meina, húsið þitt er að fara á kaf.

Þá losnaði bátur í smábátahöfninni sem björgunarsveitin batt niður en önnur verkefni komu ekki á þeirra borð. Tómas segir að Ljósanótt hafi farið vel fram.

„Við einmitt horfðum á flugeldasýninguna á leiðinni heim úr útkallinu okkar. Það tókst að skjóta henni upp þrátt fyrir veður. Ég veit ekki betur en að þar hafi allt farið mjög vel fram fyrir utan einhverjar fánastangir sem fóru á hliðina,“ segir Tómas Logi Hallgrímsson hjá björgunarsveitinni Sigurvon í Sandgerði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×