Fótbolti

Blikar hefja leik í Ísrael og enda í Póllandi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Breiðablik hefur leik í Sambandsdeildinni í Ísrael.
Breiðablik hefur leik í Sambandsdeildinni í Ísrael. Vísir/Hulda Margrét

Fyrsti leikur Breiðabliks í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu fer fram í Tel Aviv í Ísrael er liðið heimsækir Maccabi Tel Aviv síðar í þessum mánuði.

Dregið var í riðla Sambandsdeildarinnar í gær og þá varð ljóst að Breiðablik mun leika í B-riðli með Gent frá Belgíu og Zorya Luhansk frá Úkraínu ásamt Maccabi Tel Aviv. Zorya Luhansk leikur heimaleiki sína að öllum líkindum í Lublin í Póllandi.

Riðlakeppnin hefst þann 21. september næstkomandi og verður svo leikið annan til þriðja hvern fimmtudag þar til riðlakeppninni líkur þann 14. desember.

Ljóst er að Breiðabliks bíða nóg af ferðalögum á næstu mánuðum, sérstaklega ef liðið þarf að leika heimaleiki sína erlendis. Laugardalsvöllur er eini völlurinn á Íslandi sem getur talist löglegur í Sambandsdeild Evrópu og alls óvíst hvernig ástandi hann verður í þegar jólin fara að nálgast.

Ekki náðist í Eystein Pétur Lárusson, framkvæmdarstjóra Breiðabliks, við vinnslu fréttarinnar. Blikar þurftu að vera komnir með leikstað á hreint í gær og bíðum við enn eftir fréttum af því hvar liðið mun leika heimaleiki sína.

Fyrsti leikur Breiðabliks í riðlakeppninni er gegn Maccabi Tel Aviv í Ísrael þann 21. september eins og áður segir, áður en liðið tekur á móti Zorya Luhansk í sínum fyrsta heimaleik þann 5. október, hvar svo sem það verður.

Liðið ferðast svo til Belgíu þann 26. október þar sem liðið mætir Gent, en síðasti útileikurinn er gegn Zorya Luhansk þann 14. desember. Leikjaniðurröðunina má sjá hér fyrir neðan.

21. september: Maccabi Tel Aviv - Breiðablik

5. október: Breiðablik - Zorya Luhansk

26. október: Gent - Breiðablik

9. nóvember: Breiðablik - Gent

30. nóvember: Breiðablik - Maccabi Tel Aviv

14. desember: Zorya Luhansk - Breiðablik




Fleiri fréttir

Sjá meira


×