Erlent

Skutu ferðamenn sem villtust á sæþotum

Samúel Karl Ólason skrifar
Mennirnir fjórir voru á sæþotum þegar þeir villtust og urðu eldsneytislausir. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Mennirnir fjórir voru á sæþotum þegar þeir villtust og urðu eldsneytislausir. Myndin tengist fréttinni ekki beint. EPA/RONALD WITTEK

Menn í strandgæslu Alsír eru sagðir hafa skotið tvo ferðamenn til bana á þriðjudaginn. Það gerðu þeir þegar ferðamennirnir fóru inn á yfirráðasvæði Alsír á sæþotum en þeir voru í fríi í Marokkó. Þriðji ferðamaðurinn var handtekinn en þeim fjórða tókst að synda á brott.

Landamæri ríkjanna hafa verið lokuð um langt skeið vegna mikilla deilna ríkjanna tveggja, meðal annars um yfirráðasvæði í Vestur-Sahara. Dauðsföll sem þessi þó sögð sjaldgæf á landamærunum.

Þrír mannanna fjögurra eru og voru með ríkisborgararétt í bæði Frakklandi og Marokkó. Sá fjórði er marakóskur en býr í Frakklandi. Yfirvöld þar segjast í sambandi við fjölskyldur ferðamannanna og yfirvöld í bæði Marokkó og Alsír.

Maður sem heitir Mohamed Kissi sagði héraðsmiðli í Marokkó að hann, bróðir hans og tveir vinir sem voru í fríi hefðu verið að leika sér undan ströndum bæjarins Saidia, sem er við landamæri ríkjanna tveggja. Þeir hafi þó týnst í myrkrinu og orðið eldsneytislausir og rekið til austurs.

Þá segir Kissi að hraðbát, sem á stóð „Alsír“ hafi verið siglt til þeirra og vopnaðir menn um borð í honum hafi rætt við bróður hans. Mennirnir um borð í hraðbátnum skutu svo á þá alla.

Bróðirinn dó, auk eins vinar. Hinn vinurinn særðist og var handsamaður en Kissi tókst að synda til vesturs þar sem honum var bjargað af sjóliðum frá Marokkó, samkvæmt frétt BBC.

Málið mun hafa vakið mikla reiði í Marokkó og sérstaklega eftir að sjómaður birti myndband af líki eins mannanna fljótandi í sjónum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×