Innlent

Til­kynntum nauðgunum fækkar um 36 prósent

Árni Sæberg skrifar
Lögreglan hefur skráð hjá sér 79 nauðganir það sem af er ári.
Lögreglan hefur skráð hjá sér 79 nauðganir það sem af er ári. Vísir/Vilhelm

Lögreglan skráði tilkynningar um 79 nauðganir fyrstu sex mánuði ársins 2023, sem samsvarar 36 prósent fækkun frá síðasta ári.  Ef borið er saman við sama tímabil síðustu þrjú ár þar á undan þá fækkaði skráðum nauðgunum um tuttugu prósent.  Að meðaltali eru núna skráðar tilkynningar um þrettán nauðganir á mánuði hjá lögreglunni.

Þetta segir í nýútgefinni skýrslu ríkislögreglustjóra um kynferðisofbeldi. Þar segir jafnframt að lögreglan hafi skráð í allt 259 tilkynningar um kynferðisbrot á tímabilinu, sem samsvari sextán prósent fækkun frá síðustu þremur árum þar á undan.  

Helsta breytingin sé fækkun á tilkynntum nauðgunum en tilkynningum um kynferðisbrot gegn börnum séu svipaðar að fjölda og yfir sama tímabil í fyrra, en fjögur prósent fleiri miðað við meðaltal síðustu þriggja ára á undan. Tilkynningum um stafræn kynferðisleg brot, kynferðislega áreitni, brot gegn kynferðislegri friðhelgi og barnaníð, hafi verið færri en yfir sama tímabil í fyrra en fjölgað um fimm prósent samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára á undan.

Meðalaldur brotaþola kynferðisbrota er 23 ár, og þar af 44 prósent yngri en átján ára. Um 87 prósent brotaþola eru konur. Meðalaldur grunaðra er 34 ár og var 96 prósent þeirra karlar, og 67 prósent á aldrinum átján til 45 ára.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×