Innlent

Stormur í kortunum en óljóst hvar

Jón Þór Stefánsson skrifar
Búist er við því að einhverjar viðvaranir verði settar um landið, en ekki liggur fyrir hver lituinn á þeim verður.
Búist er við því að einhverjar viðvaranir verði settar um landið, en ekki liggur fyrir hver lituinn á þeim verður. Vísir/Vilhelm

Búist er við stormi og rigningu á landinu um helgina. Ekki liggur þó fyrir að svo stöddu hvar á landinu veðrið verður verst.

„Það lítur alveg út fyrir að við fáum heiðarlegan storm,“ segir Ei­rík­ur Örn Jóhannsson, veðurfræðingur á vakt Veðurstofu Íslands.

„Það er svolítill haustbragur af þessari lægð, og hún er að koma það er alveg ljóst. Það er þó ekki alveg komið á hreint enn þá hvar hún lendir verst. En það er nokkuð ljóst að það verður stormur einhversstaðar og jafnvel mikil rigning í einhverjum landshlutum,“ bætir hann við.

Eiríkur bætir við að stormur sem þessi sé að mæta óvenju snemma á árinu og því þyki Veðurstofunni rétt að láta vita af honum með ágætum fyrirvara þó hún hafi enn ekki gefið út viðvaranir vegna hans.

Hann segist búast við því að viðvaranir verði einhverjar. Hann getur þó ekki spáð fyrir um hver liturinn á þeim verður.

Að svo stöddu lítur staðan verst út á suður og vesturlandi að sögn Eiríks. Um helgina fer fram bæjarhátíðin Ljósanótt í Reykjanesbæ. Spurður út í hvort hann myndi hafa áhyggjur væri hann skipuleggjandi hátíðarinnar sagðist hann að minnst kosti sniðugt að fylgjast vel með veðurspám.

„Ég myndi allavegana fylgjast vel með veðurspám og taka stöðuna á því sem ég ætti von á,“ segir Eiríkur sem tekur fram að framkvæmd hátíðarinnar sé ekki vonlaus, en betra væri að vera meðvitaður um stöðuna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×