Innlent

Lýsa yfir ó­vissu­stigi vegna Skaft­ár­hlaupsins

Jón Þór Stefánsson skrifar
Árnar geta flætt yfir bakka og vegi sem liggja þeim nærri líkt og gerðst í hlaupinu 2021, eins og sjá má á þessari mynd.
Árnar geta flætt yfir bakka og vegi sem liggja þeim nærri líkt og gerðst í hlaupinu 2021, eins og sjá má á þessari mynd. Vísir/RAX

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi lýst yfir óvissustigi Almannavarna vegna Skaftárhlaups. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum.

Bent er á að brennisteinsvetnismengun geti fundist þar sem hlaupvatn kemur undan jökli. Hún getur skaðað slímhúð í öndunarfærum og augum auk þess sem árnar geta flætt yfir bakka og vegi sem liggja þeim nærri.

Ferðafólki er eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals svo og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnaárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort hlaupið komi úr Skaftárkatli Vestari eða Eystri að svo stöddu, en árið 2021 hljóp úr báðum kötlunum og má búast við svipuðum afleiðingum og þá, að sögn almannavarna.

„Óvissustig Almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi Almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila,“ segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×