Innlent

Nauðgunar­mál Finns ekki fyrir Hæsta­rétt

Jón Þór Stefánsson skrifar
Hæstiréttur
Hæstiréttur Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur hefur hafnað áfrýjunarleyfisbeiðni Finns Þ. Gunnþórssonar, sem Landsréttur dæmdi í júní í þriggja ára fangelsi vegna nauðgunar. Áður hafði Héraðsdómur Reykjaness gefið honum tveggja og hálfs árs dóm, en hann var þyngdur í Landsrétti.

Málið sem dómurinn varðar átti sér stað í nóvember 2019. Finnur var ákærður fyrir að nauðga konu, hrinda henni á rúm og halda henni fastri, halda fyrir vit hennar svo hún ætti erfitt með andardrátt og slá, bíta og klípa hana mörgum sinnum um allan líkamann. Auk þess fyrir að hafa stungið nokkrum fingrum inn í leggöng hennar án samþykkis.

Fram hefur komið að Finnur hafi ekki verið yfirheyrður fyrr en sjö mánuðum eftir atvikið og hálfu ári eftir að kæra var lögð fram. Það þótti þó ekki hafa spillt vörnum hans að mati Landsréttar.

Finnur og konan höfðu kynnst á skemmtistað og fóru heim til hans saman, en að sögn hennar breyttist þá hann í fasi og beitti hana umræddu ofbeldi.

Hann vísaði málinu til Hæstaréttar og sagði það geta haft fordæmisgildi um afturköllun samþykkis í nauðgunarmálum, og hélt því fram að ekki hefði reynt á túlkun þess fyrir Hæstarétti með þessum hætti.

Jafnframt taldi hann verknaðarlýsinguna í ákærunni ekki nægilega skýra og tók hann fram að samþykki brotaþola hafi legið fyrir við upphaf kynferðismaka þeirra.

Hæstiréttur féllst ekki á það og veitti Finni ekki áfrýjunarleyfi. Dómurinn sagði málið ekki hafa verulega almenna þýðingu né þætti verulega mikilvægt af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×