Erlent

Myrti þrjá svarta með riffli skreyttum haka­krossum

Árni Sæberg skrifar
Ódæðið var framið í borginni Jacksonville.
Ódæðið var framið í borginni Jacksonville. John Raoux/AP

Ungur bandarískur karlmaður myrti þrjár svartar manneskjur í verslun í Jacksonville í Flórída í gær áður en hann svipti sig lífi. Lögreglan í borginni segir skotárásina hafa verið hatursglæp framinn vegna haturs mannsins á svörtu fólki.

„Þessi skotárás orsakast af kynþáttahatri, og hann hatar svart fólk,“ hefur Reuters eftir T.K. Waters, lögreglustjóra Jacksonville.

Á blaðamannafundi í morgun sagði Waters að árásarmaðurinn hafi skilið eftir sig nokkrar yfirlýsingar, þar á meðal eina handa foreldrum hans og eina handa yfirvöldum. Þar hafi hann lýst „viðbjóðslegri hugmyndafræði sinni um kynþáttahatur.“

Notaði riffil skreyttan hakakrossum

Maðurinn, sem sagður er hvítur og rétt rúmlega tvítugur, bar tvö skotvopn þegar hann framdi árásina. Annars vegar hálfsjálfvirkan riffil sem hann hafði skreytt með hakakrossum og hins vegar skammbyssu af gerðinni Glock.

Riffillinn er sagður sambærilegur rifflinum AR-15, en rifflar af þeirri tegund verða oftast fyrir valinu hjá ódámum sem fremja fjöldamorð í Bandaríkjunum.

 Hafi tekið leið heigulsins

Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída hefur fordæmt árásina og sagt árásarmanninn heigul fyrir að hafa svipt sig lífi í stað þess að taka afleiðingum gjörða sinna.

„Þessi árás, miðað við yfirlýsingar drullusokksins sem framdi hana, orsakaðist af kynþáttahatri. Hann valdi fórnarlömb sín vegna kynþáttar þeirra. Það er algjörlega óásættanlegt,“ er haft eftir honum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×