Erlent

Pútin tjáir sig og lofar rann­sókn á dauða Prigoz­hin

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Pútín segir að rannsóknin muni taka tíma.
Pútín segir að rannsóknin muni taka tíma. EPA

Vladímír Pútín Rússlandsforseti sendir fjölskyldu Yevgeny Prigozhin samúðarkveðjur. Hann tjáði sig í fyrsta sinn um dauða Wagner leiðtogans í sjónvarpsávarpi síðdegis í dag.

Pútín lýsti Prigozhin sem hæfileikaríkum viðskiptamanni og hét því að láta rannsaka flugslysið.Rannsókn muni hins vegar taka tíma. Þetta er í fyrsta sinn síðan tilkynnt var um dauða Prigozhin í gær að einhver úr stjórnkerfi Rússlands tjáir sig um hann.

„Ég hef þekkt Prigozhin í langan tíma, síðan í upphafi tíunda áratugarins. Hann var maður sem átti erfið örlög. Hann gerði nokkur alvarleg mistök á ævi sinni,“ sagði Pútín í ávarpinu. „Hann náði þeim árangri sem ég bað hann um að ná á síðustu mánuðunum, bæði fyrir sjálfan sig og fyrir sameiginlegan málstað okkar.“

Átti hann þá við árangur Wagner liða til að ná borginni Bakmút í Donetsk héraði, sem barist hafði verið um mánuðum saman.

„Ef því sem ég veit kom Prigozhin frá Afríku í gær. Þar hitti hann ákveðna opinbera fulltrúa,“ sagði Pútín. En Wagner hópurinn hefur verið í náðinni hjá herforingjastjórn Malí og talið er að Prigozhin hafi ætlað sér að ná meiri áhrifum hjá nýrri herforingjastjórn Níger.

Pútín sagði að gögn sýni að fleiri Wagner liðar hafi verið um borð í flugvélinni sem hrapaði í gær. Alls voru tíu um borð, þar af þriggja manna áhöfn.

„Þetta fólk hefur lagt mikið af mörkum í sameiginlegu takmarki okkar að berjast við nýnasistastjórnina í Úkraínu. Við munum og vitum þetta og við munum ekki gleyma þessu,“ sagði Pútín sem hefur reynt að klína nasistastimplinum á Úkraínumenn frá stríðsbyrjun  í febrúar árið 2022 til að réttlæta innrás sína.


Tengdar fréttir

Flugvél Prigozhin sögð hafa verið skotin niður

Rússneski auðjöfurinn Yevgeny Prigozhin, eigandi málaliðahópsins Wagner Group, er lést er einkaflugvél hans féll til jarðar í Rússlandi í dag. Fregnir hafa borist af því að flugvélin hafi verið skotin niður en það er óstaðfest.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×