Fótbolti

Góð úr­slit muni fyrst og fremst nást með bar­áttu

Aron Guðmundsson skrifar
Höskuldur Gunnlaugsson er fyrirliði Breiðabliks sem verður í eldlínunni í Norður-Makedóníu í dag.
Höskuldur Gunnlaugsson er fyrirliði Breiðabliks sem verður í eldlínunni í Norður-Makedóníu í dag. Vísir/Hulda Margrét

Höskuldur Gunn­laugs­son, fyrir­liði Breiða­bliks á von á krefjandi leik þegar liðið mætir Struga í Norður-Makedóníu í dag í um­spili um laust sæti í riðla­keppni Sam­bands­deildar Evrópu í fót­bolta. Um er að ræða fyrri leikinn í ein­vígi liðanna.

Flautað verður til leiks í Norður-Makedóníu klukkan þrjú að ís­lenskum tíma í dag en leikurinn verður sýndur í beinni út­sendingu á Stöð 2 Sport 2.

Blikar hafa undan­farna daga verið í Norður-Makedóníu að undir­búa sig fyrir komandi átök.

„Þetta er fal­legt um­hverfi, það hefur verið vel tekið á móti okkur og spennandi leikur fram­undan. Það er því bara flott að vera hér, segir Höskuldur í sam­tali við Blikar TV en Blikar æfðu á keppnis­vellinum í gær.

„Æfingin var bara góð og gott að ná púlsinum að­eins upp. Þá var gott að kynnast þeim að­stæðum sem við verðum að spila í, vellinum og boltanum. Þetta var já­kvæð æfing þar sem að menn gátu farið að brýna takka­skóna fyrir leikinn.“

Höskuldur segir leik dagsins alltaf að fara vera krefjandi.

„Við erum búnir að vera leik­greina þá nokkuð ítar­lega og þetta er hörku lið, annars væru þeir ekki komnir á þetta stig í um­spil fyrir riðla­keppni.

Við erum komnir með á­gæta mynd á það í hverju þeir eru góðir, hvar þeir gæta sært okkur og svo við þá. Ég held að við megum bara búast við hörku leik þar sem að við ætlum að vera mjög fókuseraðir.“

Blikar þurfi að reyna spila sinn leik á kannski ekki alveg full­komnum velli.

„Þetta er ekki beint eitt­hvað teppi, við þurfum að að­lagast því og góð úr­slit munu því kannski fyrst og fremst nást með bar­áttu og því að menn séu til­búnir að vinna sín ná­vígi og bakka hvorn annan upp. Þetta verður vissu­lega kannski öðru­vísi leikur heldur en við munum sjá á Kópa­vogs­velli.“

Við­talið við Höskuld af Blikar TV má sjá í heild sinni hér fyrir neðan:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×