Erlent

Rúss­neska farið á braut um tunglið

Kjartan Kjartansson skrifar
Tunglfarinu Luna-25 var skotið á loft með Soyuz-eldflaug frá Vostotsjníj í austanverðu Rússlandi föstudaginn 11. ágúst.
Tunglfarinu Luna-25 var skotið á loft með Soyuz-eldflaug frá Vostotsjníj í austanverðu Rússlandi föstudaginn 11. ágúst. Vísir/EPA

Luna-25, fyrsta rússneska tunglfarið í tæpa hálfa öld, komst á braut um tunglið í gær. Farið á að fara fimm brautir í kringum tunglið áður en reynt verður að lenda því á suðurpólnum á mánudag.

Rússar etja nú kappi við Indverja um að verða fyrstir til þess að lenda geimfari á suðurpól tunglsins. Svæðið þykir sérstaklega áhugavert þar sem talið er að vatnís gæti verið að finna í botni gíga í varanlegu myrkri. Vinnanlegt vatn væri dýrmæt auðlind fyrir framtíðarkönnun og landnám tunglsins, meðal annars sem hráefni í eldflaugaeldsneyti.

Luna-25 er fyrsta rússneska geimfarið sem kemst á braut um tunglið frá því að Luna-24 gerði það árið 1976. Anatolíj Zak, höfundur vefsíðu sem fylgist með geimáætlun Rússa, segir Reuters-fréttastofunni að áfanginn sé mikilvægur.

„Sumir kallað þetta annað tunglkapphlaupið þannig að það er mjög mikilvægt fyrir Rússland að halda áætluninni áfram. Luna-25 er ekki bara einn leiðangur, hann er hluti af mun stærri áætlun sem nær tíu ár inn í framtíðina,“ segir Zak.

Tunglfarinu er ætlað að safna sýnum af tunglgrjóti og ryki til þess að vísindamenn geti áttað sig betur á aðstæðum þar sem mannabústaðir gætu mögulega risið í framtíðinni.


Tengdar fréttir

Rússar á leið til tunglsins

Rússar skutu tunglfarinu Luna-25 á loft í morgun í fyrstu tunglferð landsins í 47 ár. Geimfarið á að lenda 23. ágúst á tunglinu, sama dag og indverska tunglfarið sem fór á loft í júlí.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×