Fótbolti

„Leikir sem voru að detta með þeim í upp­hafi móts eru ekki að detta með þeim núna“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Keflavík er í fallsæti Bestu deildar kvenna.
Keflavík er í fallsæti Bestu deildar kvenna. Vísir/Anton Brink

Lið Keflavíkur situr í fallsæti Bestu deildar kvenna í knattspyrnu. Helena Ólafsdóttir og sérfræðingar hennar í Bestu mörkunum ræddu stöðu liðsins í þætti gærkvöldsins á Stöð 2 Sport. 

Keflavík beið lægri hlut gegn ÍBV í Vestmannaeyjum í Bestu deild kvenna í fyrrakvöld. Eftir tapið situr Keflavík í fallsæti Bestu deildarinnar, þremur stigum á eftir Eyjakonum.

Helena Ólafsdóttir, Harpa Þorsteinsdóttir og Lilja Dögg Valþórsdóttir ræddu stöðu Keflavíkurliðsins í Bestu mörkunum í gærkvöldi. Helena sagðist hafa áhyggjur af liðinu.

„Mér finnst þær hafa sýnt okkur leiki en svo finnst mér þær detta alveg svakalega niður á milli,“ sagði Helena og Harpa tók undir áhyggjur hennar.

„Mér finnst þær ekki alveg hafa náð að fylgja eftir ágætis byrjun á mótinu. Leikir sem voru að detta með þeim í upphafi móts eru ekki að detta með þeim núna.“

Klippa: Bestu mörkin: Umfjöllun um Keflavík

Keflavík hefur verið í baráttu í neðri hluta deildarinnar síðustu tvö tímabil og sama er uppi á teningunum þetta tímabilið.

„Við erum að tala um gríðarlega breytt lið og nýjan þjálfara. Ég hef miklar mætur á (Jonathan) Glenn,“ sagði Harpa.

„Mér finnst hann búinn að sýna það með ÍBV-liðið í fyrra og svo byrjar hann vel með Keflavík í ár,“ bætti Helena við en liðið missti einn sinn besta leikmann fyrir skömmu síðan þegar Linli Tu gekk til liðs við Breiðablik.

Alla umræðu þeirra Helenu, Hörpu og Lilju Daggar má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×