Fótbolti

Firmino hlóð í þrennu er sádiarabíska deildin hófst

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Roberto Firmino sá til þess að sádiarabíska deildin hófst með látum.
Roberto Firmino sá til þess að sádiarabíska deildin hófst með látum. Yasser Bakhsh/Getty Images

Roberto Firmino var allt í öllu er Al Ahli SC vann opnunarleik sádiarabísku deildarinnar í knattspyrnu í kvöld. Liðið tók á móti Al Hazem og Firmino skoraði öll þrjú mörk Al Ahli í 3-1 sigri liðsins.

Mörg af liðum sádiarabísku deildarinnar hafa safnað til sín leikmönnum úr stórliðum Evrópu og því hafa margir beðið spenntir eftir upphafi deildarinnar.

Roberto Firmino, sem gekk í raðir Al Ahli frá Liverpool í sumar, stal senunni í opnunarleik tímabilsins þegar hann skoraði þrennu í kvöld. Hann kom heimamönnum yfir strax á sjöttu mínútu og fjórum mínútum síðar tvöfaldaði hann forystu liðsins eftir stoðsendingu frá Riyad Mahrez, fyrrverandi leikmanni Manchester City.

Gestirnir minnkuðu þó muninn snemma í síðari hálfleik áður en Firmino fullkomnaði þrennu sína og innsiglaði um leið 3-1 sigur Al Ahli með marki á 72. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×