Fótbolti

Fyrsti sigur Grindavíkur í 50 daga kom gegn toppliðinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Grindvíkingar unnu langþráðan sigur í kvöld.
Grindvíkingar unnu langþráðan sigur í kvöld. Knattspyrnudeild UMFG/Petra Rós

Grindavík vann óvæntan 2-1 útisigur er liðið heimsótti topplið Aftureldingar í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld. Grindvíkingar voru án sigurs í deildinni síðan 22. júní síðastliðinn, eða í 50 daga.

Það var Símon Logi Thasaphong sem kom gestunum frá Grindavík yfir á 37. mínútu áður en Aron Elí Sævarsson jafnaði metin fyrir heimamenn snemma í síðari hálfleik með marki úr vítaspyrnu.

Gestirnir fengu hins vegar einnig vítaspyrnu og Óskar Örn Hauksson kom Grindvíkingum yfir á ný eftir rétt tæplega klukkutíma leik. Reyndist það síðasta mark leiksins og niðurstaðan varð því 2-1 sigur Grindavíkur.

Eins og áður segir var þetta fyrsti deildarsigur Grindvíkinga í 50 daga, en einnig var þetta þriðji leikurinn í röð án sigurs hjá toppliði Aftureldingar sem hefur tapað tveimr og gert eitt jafntefli í síðustu þremur umferðum.

Þrátt fyrir það trónir Afturelding enn á toppi deildarinnar með 36 stig eftir 16 leiki, sex stigum meira en ÍA í öðru sætinu sem á leik til góða. Grindvíkingar sitja nú í sjöunda sæti með 19 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×