Fótbolti

Dagný á von á sínu öðru barni og nýjum „Hamri“

Sindri Sverrisson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir smellir kossi á Brynjar son sinn sem bráðum eignast lítið systkini.
Dagný Brynjarsdóttir smellir kossi á Brynjar son sinn sem bráðum eignast lítið systkini. VÍSIR/VILHELM

Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í fótbolta, tilkynnti um það á samfélagsmiðlum í dag að hún ætti von á sínu öðru barni.

Dagný, sem fagnar 32 ára afmæli á morgun, fæddi son sinn Brynjar sumarið 2018, þegar hún var leikmaður Portland Thorns í Bandaríkjunum, og nú er ljóst að á næsta ári eignast þau Ómar Páll Sigurbjartsson sitt annað barn.

Dagný mun því ekki spila með liði West Ham í vetur en á síðustu leiktíð var hún valin besti leikmaður liðsins.

„Þetta var örugg­lega mitt besta tíma­bil með West Ham og ég er að mörgu leiti mjög á­nægð með það en þó að það hafi gengið vel var ég líkam­lega að glíma við mikið hnjask. Ég fékk beinmar í hælinn og ýmis­legt hnjask hér og þar, eitt­hvað sem ég hef ekki þurft að glíma við í langan tíma,“ sagði Dagný í viðtali við Vísi fyrr í sumar.

Dagný er ein af leikjahæstu landsliðskonum Íslands frá upphafi með 113 A-landsleiki og hún er jafnframt sú næstmarkahæsta frá upphafi, á eftir Margréti Láru Viðarsdóttur, með 38 mörk.

Dagný greinir stuðningsmönnum West Ham frá nýja meðlimnum í „West Ham“-fjölskyldunni í myndbandi á samfélagsmiðlum enska félagsins í dag.

Þar talar hún einnig um stoltið sem hefur fylgt því að verða fyrirliði liðsins, eftir að hafa verið ein af þremur stuðningsmönnum West Ham í 800 manna þorpi á Íslandi, Hellu. Hún kom til félagsins 2021 þegar Brynjar var tveggja ára og kveðst afar þakklát fyrir það hvernig honum hefur verið tekið hjá félaginu, þar sem hann fær að mæta á æfingasvæðið og njóta sín enda sé hann orðinn gallharður stuðningsmaður Hamranna. Því sé sérstaklega ánægjulegt að geta tilkynnt um nýja fjölskyldumeðliminn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×