Innlent

Eðli­legt að skoða hval­reka­skatt til að koma til móts við heimilin í landinu

Helena Rós Sturludóttir skrifar
Ágúst Bjarni Garðarson, þingmaður Framsóknarflokksins og starfandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar, telur eðlilegt að hvalrekaskattur á bankana verði skoðaður.
Ágúst Bjarni Garðarson, þingmaður Framsóknarflokksins og starfandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar, telur eðlilegt að hvalrekaskattur á bankana verði skoðaður.

Starfandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar tekur undir með viðskiptaráðherra og segir eðlilegt að skoða að setja svokallaðan hvalrekaskatt á bankana til að bregðast við stöðu heimilanna í landinu. Bankarnir séu að hagnast gríðarlega vegna vaxtahækkana.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra sagði í kvöldfréttum Stöðvar tvö í gær að til greina kæmi að leggja svokallaðan hvalrekaskatt á bankana vegna ofurhagnaðar sem rekja mætti til hærri vaxta. Ekkert lægi þó fyrir um slíkt innan ríkisstjórnarinnar en brýnt væri að ná verðbólgunni niður. 

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins og starfandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar, er sammála ráðherra og telur mikilvægt að sú leið verði skoðuð. 

„Sjálfur hef ég auðvitað sem þingmaður bent á þessa leið líka til þess að bregðast við og koma til móts við heimilin í erfiðri stöðu,“ segir Ágúst Bjarni. Hugmyndin hafi ekki komið á borð efnahags- og viðskiptanefndar og of snemmt sé að segja til um hvort hún skili sér þangað.

„Bankarnir eru að hagnast gríðarlega og sá hagnaður er að miklu leyti kominn vegna þeirra vaxtahækkana sem hafa verið og mér finnst það og ég tala persónulega mér finnst eðlilegt að þessi leið sé skoðuð,“ segir Ágúst Bjarni. Ítalía hafi meðal annars ákveðið að fara þessa leið líkt og greint var frá í gær. 

„Þar er lagður 40 prósent skattur á þennan hagnað bankanna en hvort að það sé endilega einhver tala sem við myndum skoða en ég myndi klárlega styðja það að bankarnir og það yrði farið sambærilega leið til að koma til móts við heimilin,“ segir hann. 

Ágúst Bjarni segir fleiri flokka hafa viðrað hugmyndir um hvalrekaskatt en hann geti þó ekki talað fyrir hönd annarra. „Við verðum að sjá hvort þessi tiltekna leið fái einhverja umræðu í ríkisstjórn og þá í kjölfarið í nefndum þingsins.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×