Viðskipti erlent

Ítalía leggur 40 prósent „hval­reka­skatt“ á hagnað bankanna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
„Lífskjörin eru ekki vandamálið, heldur kapítalisminn!“ stendur graffað á vegg í Róm.
„Lífskjörin eru ekki vandamálið, heldur kapítalisminn!“ stendur graffað á vegg í Róm. Getty/Corbis/Stefano Montesi

Stjórnvöld á Ítalíu hafa ákveðið að leggja 40 prósent skatt á hagnað banka á þessu ári en skattheimtan mun eingöngu ná til þess hluta hagnaðarins sem er tilkominn vegna vaxtamunar.

Þau segja skatttekjurnar verða nýttar til þess að koma til móts við fjölskyldur landsins, sem hafa verið leiknar grátt af ítrekuðum vaxtahækkunum.

Hlutabréf í bönkunum hafa lækkað um allt að átta prósent eftir að tilkynnt var um skattinn. Áætlað virði þeirra er sagt hafa lækkað um 9,5 milljarða evra frá því að markaðir opnuðu. Það svarar til tæplega 1400 milljarða króna.

Matteo Salvini, aðstoðarforsætisráðherra Ítalíu, segir ákvörðunina afleiðingu vaxtahækkana Seðlabanka Evrópu og gríðarlegs hagnaðar ítölsku bankana vegna vaxtamunarins. 

Umræddur hagnaður er sagður nema tæpum 20 prósentum af heildarhagnaði bankanna.

Salvini hefur bent á að á sama tíma og vextir á lánum hafi hækkað gríðarlega hafi vextir á innistæðum varla hreyfst. Þannig hafi bankarnir hagnast gríðarlega, á sama tíma og lántekendur séu undir síauknum þrýstingi.

Skattlagning af þessu tagi, af miklum hagnaði og til skamms tíma, hefur verið kölluð „hvalrekaskattur“ á íslensku en áköll um slíkan skatt hafa verið hávær síðustu misseri, til að mynda á Bretlandseyjum.

Þar hafa aðgerðasinnar hvatt til þess að allur hagnaður stórfyrirtækja sem hafa hagnast á sama tíma og heimilin eiga sífellt erfiðara með að ná endum saman verði skattlagður sérstaklega.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×